140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram að ræða stöðu heimilanna. Gleymum því ekki að forsaga þessarar skýrslu er sú að fagaðili var fenginn til að skoða möguleika á almennum aðgerðum, hvað þær mundu kosta og hverjir gætu greitt fyrir þær. Niðurstaðan: Ef það er vilji til að fara í almennar aðgerðir verða þær mjög kostnaðarsamar. Þær kosta um 200 milljarða kr. og við komumst ekki fram hjá því að ríkið borgi þann reikning. Þá þurfum við annaðhvort að hækka skatta eða skera niður útgjöld.

Ég tel að við eigum að halda áfram að ræða stöðu heimilanna. Við eigum að horfa á þá sem verst eru staddir og koma með lausnir til handa þeim, hvort sem þeir eru lánsveðshópurinn eða þeir sem eru með skuldir á ábyrgðarmönnum. Þannig eigum við að vinna og taka næstu skrefin og við eigum að gera það af jafnmikilli fagmennsku og við nálguðumst verkefnið í fyrravor á Alþingi.

Ég held hins vegar að við eigum að horfa á grunnforsendurnar. Af hverju er staða svona margra heimila svona erfið? Það birtist ágætlega á borgarafundi sem haldinn var í Háskólabíói á mánudagskvöldið (Gripið fram í.) þar sem talað var um verðtrygginguna og stöðu heimilanna vegna verðtryggingarinnar. Verðtryggingin er herkostnaðurinn af því að búa í litlu berskjölduðu hagkerfi með eigin mynt. Verðbólga og verðtrygging verða alltaf fylgifiskur krónunnar nema við viljum hverfa til haftastefnu fortíðar eða eiga á hættu að sparnaður hverfi. Upptaka annarrar myntar er að mínu mati eina raunhæfa leiðin til að losna undan verðtryggingu og afleiðingum hennar, eins og við sjáum til dæmis í tengslum olíuverðs eða hveitiverðs og hvaða áhrif slíkt hefur á skuldir heimilanna.