140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem aftur upp út af auðlindaumræðunni vegna þess að ég hafði ekki lokið máli mínu. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Skúli Helgason segir, veiðigjaldið í fiskveiðum hefur stundum verið lækkað mjög mikið þannig að það verði óverulegt. Ég tek fram að veiðigjaldi var komið á í kjölfar vinnu auðlindanefndarinnar um síðustu aldamót. Stundum er þetta gjald mjög lágt og stundum er það gríðarhátt, t.d. slagar það hátt í 10 milljarða á þessu ári.

Ástæðan fyrir því að veiðigjaldið hefur verið lækkað þegar illa hefur árað í sjávarútvegi er nákvæmlega sú að auðlindaarðurinn sveiflast. Stundum er hann lítill og stundum er hann mikill, hann er aldrei föst stærð. Auðlindaarðurinn er fall af kostnaðinum við veiðarnar, hann er fall af því hversu sterkir stofnarnir eru og hann er fall af því hvaða verð fæst fyrir afurðirnar þannig að auðlindarentan er mjög mismunandi milli ára og þar af leiðandi eru tekjurnar af auðlindarentunni líka mismunandi á milli ára.

Næsta mál er þessi svokallaði auðlindasjóður. Þá horfa menn til Noregs, það er til algjörrar fyrirmyndar hvernig Norðmenn innheimta auðlindaarðinn af olíunni í auðlindasjóð sinn. Þar sem eru óendurnýjanlegar auðlindir er þjóðfélagslega hagkvæmt að setja auðlindarentuna inn í sjóð, ávaxta hana og dreifa til framtíðarkynslóða, en við auðlindir eins og við Íslendingar búum við, endurnýjanlegar auðlindir, (Forseti hringir.) er eðlilegt að rentan sé tekin á hverju ári. Þessi auðlindasjóður sem menn eru að tala um er einhver hugarvilla og á alls ekki við í þessu sambandi.