140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mig langaði að taka aftur til máls um skuldamál heimilanna vegna orða Magnúsar Orra Schrams þingmanns áðan um að leiðin til að taka á verðtryggingunni væri að ganga í ESB og taka upp nýja mynt sem væri þá evra. Ég er sammála því að það er ein leið, en það er ekki eina leiðin. Ef við ætlum að ganga í Evrópusambandið er það ekkert öðruvísi en að ganga í önnur sambönd, maður þarf að taka til heima hjá sér fyrst. Það er ekki hægt að fara inn í það samband og halda að allt breytist og allt verði í lagi. Þannig er það ekki, við þurfum að vinna okkar vinnu, við þurfum að tryggja að samfélag okkar sé réttlátt og að framtíðarkynslóðir vilji búa hérna áður en við tökum næsta skref, hvort sem við tökum það eða ekki. Það er ekki boðlegt að segja að allt lagist með því að ganga í Evrópusambandið.

Fyrst við erum að tala um það og upptöku nýrrar myntar sem eina leið bendi ég á að við skiptum um mynt árið 1980, algjörlega án þess að hrófla við verðtryggingunni, þannig að það er ekki beint samasemmerki við það að skipta um mynt þótt vissulega væri gott að nota það tækifæri. Það sem ég hefði áhuga á að vekja athygli þingmannsins á eru lög og reglur sem við höfum innleitt hér út af EES-samningnum. Ég velti upp spurningu í ræðustóli Alþingis: Samræmast verðtryggð lán þeim lögum sem við höfum innleitt um neytendarétt vegna EES-samningsins? Erum við ekki eiginlega þegar í lagaumhverfi sem ætti að koma í veg fyrir svona vitleysu?