140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki alls kostar rétt að bein tengsl séu milli atkvæðavægis og hækkunar kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það kemur reyndar strax fram í greinargerðinni með þessu frumvarpi að við ættum í raun og veru að fá meira atkvæðavægi ef farið væri nákvæmlega eftir því hversu hátt framlag okkar er til sjóðsins. Það ætti sem sagt ekki að fara úr 0,055% í 0,067% heldur í 1%. Þegar við ræddum þetta aukna atkvæðavægi í fyrra frumvarpinu, sem var samþykkt held ég fyrir ári í þinginu, þá var það ekki tengt greiðslum Íslands í sjóðinn. Það hefur meðal annars verið staðfest af embættismönnum í umræðum okkar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Hv. þingmaður spyr hvaða skilaboð munu felast eða ættu að felast í því að hafna þessari kvótahækkun. Ég taldi það reyndar vera alveg skýrt í ræðu minni að það þarf að breyta þessari stofnun verulega áður en henni verður gert kleift að auka umsvif sín. Það þarf jafnframt að gera henni og öðrum aðildarþjóðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ljóst að við eigum ekki fyrir þessari kvótahækkun og ekki nóg með það heldur erum við að fjármagna hluta af kvótahækkuninni með rándýru láni frá sjóðnum til að leggja inn í sjóðinn aftur á mun lægri vöxtum og taka á okkur vaxtamun sem er rúm 5%.