140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[16:08]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í neinar deilur við hv. þingmann um hvort þessi fjórtánda endurskoðun á kvótum hafi verið gerð í tengslum við breytt atkvæðavægi, enda skiptir það ekki öllu máli í þessari umræðu.

Mér finnst ekki koma nægilega skýrt svar frá hv. þingmanni um hvað við erum að gera með því að segja nei. Það er algerlega ljóst að skilaboð sem koma frá Íslandi einu sem segja: Ja, við viljum ekki vera með vegna þess að við viljum endurskoða sjóðinn — eru náttúrlega frekar veik skilaboð. En ég er að spá í stöðu okkar innan sjóðsins. Ef við viljum ekki taka þátt í endurskoðuninni eins og við höfum gert alveg eftir Bretton Woods, hvað erum við þá raunverulega að segja?

Annað mál er með þessa 9 milljarða sem munu verða færðir yfir til sjóðsins en við munum aftur fá aðgang að þeim. Við færum þessa 9 milljarða sem við erum að fjármagna á 5,55% vöxtum og munum geta fengið þá til baka — ég held að það séu 0,15% vextir núna á SDR, en það er ekki aðalatriðið heldur er aðalatriðið: Hvað erum við að gera með því að segja nei? Ég skil ástæðurnar fyrir því að hv. þingmaður vill segja nei en ég skil ekki alveg hvað við erum þá að segja. Erum við að segja okkur úr lögum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Eða erum við að segja að við viljum breyta Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Hvaða merkingu hefur það ef Ísland eitt ríkja heims segir: Við viljum breyta Alþjóðagjaldeyrissjóðnum — (Forseti hringir.) og ef honum verður ekki breytt, hvaða afleiðingar hefur það fyrir Ísland?