140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

upplýsingalög.

366. mál
[17:34]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegi forseti. Í tillögum þeim sem nú eru til umfjöllunar hjá hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd frá hinu svokallaða stjórnlagaráði er að finna margvísleg ný ákvæði sem gerð er tillaga um að komi í stjórnarskrá, til dæmis um mannréttindi og auðlindir. Kjarninn í þeim er þó stórvægileg breyting á því hvernig ákvarðanir eru teknar í samfélagi okkar, innan ríkisstjórnar og á milli ólíkra stofnana, ráðuneyta, þings, ríkisstjórnar, forseta, sem fyrr segir. Verið er að nálgast það umhverfi þar sem færi gefst á þróun í átt að því sem kallað hefur verið samræðustjórnmál, og færa íslensk stjórnmál þannig úr þeim farvegi átakastjórnmála sem hefur kannski um langt skeið einkennt þau um of. Ég mundi ætla að í því tilliti séum við vonandi líka að ýta undir þá þróun að á hinn pólitíska vettvang komi stjórnmálamenn sem eru kannski steyptir úr öðru móti en þeir sem hafa komið á undan, að því leytinu til að í slíku umhverfi er ekki lengur þörf á hinum sterka leiðtoga, eins og það hefur verið kallað, heldur miklu frekar þeim sem getur sætt ólík sjónarmið, hlustað á alla og komið með málamiðlanir þegar það er hægt.

Með nýsamþykktum lögum um Stjórnarráð Íslands sem við samþykktum á síðasta ári var búið í haginn fyrir þessa þróun að því leyti að til dæmis voru settar reglur um hvernig upplýsingar eru skráðar um það sem gerist á ríkisstjórnarfundum og það sem gerist á milli ráðuneyta. Ríkisstjórninni voru að sama skapi gefin aukin færi á því að skipuleggja starfsemi sína. Í þessu felst ákveðinn aðskilnaður frá löggjafarvaldinu.

Í því máli sem hæstv. forsætisráðherra leggur fram í annað sinn er verið að fjalla um aðgengi almennings, þar með talið fjölmiðla, að ákvarðanatökunni og að þeirri starfsemi sem varðar hagsmuni almennings hverju sinni, opna ferlið, gera það gagnsærra og þar af leiðandi að auðvelda aðhald og opinbera umræðu. Því ber að fagna.

Í upplýsingalagafrumvarpinu sem við fjölluðum ítarlega um í allsherjarnefnd á síðasta ári voru þrjár meginbreytingar sem voru mjög jákvæðar og mjög til bóta frá því sem er í íslensku lagaumhverfi. Þá vil ég fyrst telja aðgengi að upplýsingum um rekstur og innri mál fyrirtækja sem eru að stórum hluta eða meiri hluta í eigu opinberra aðila. Tekið hefur verið tillit til breytinga sem meiri hluta allsherjarnefndar lagði til á síðasta ári að því leyti að eignarhlutur hins opinbera er færður niður úr 75% í 51% og það sett inn í frumvarpið að nýju, þannig að ef fyrirtækið er í meirihlutaeigu opinberra aðila gilda um það upplýsingalög. Þá er jafnframt verið að opna mjög á aðgengi að upplýsingum um launakjör og hagi opinberra starfsmanna, æðstu stjórnenda í stofnunum og hjá sveitarfélögum, sem ég tel jafnframt að sé mjög jákvætt.

Enn fremur var sett inn mjög mikilvæg regla í lögin, svonefnd tilgreiningarregla, sem felur í sér að ef leitað er eftir upplýsingum um tiltekið málefni, segjum til dæmis að blaðamaður óski eftir upplýsingum hjá ráðuneyti en hafi ekki tiltækt nafn á skýrslu, samantekt eða minnisblaði, er stjórnvaldinu skylt, þegar fyrirspurn kemur, að búa til lista eða skrá yfir það efni sem til er innan stofnunarinnar og fyrirspurnin gæti beinst að. Þetta auðveldar auðvitað mjög aðgengi.

Í allsherjarnefnd fór fram töluverð umræða um þetta mál á síðasta ári. Hún var uppbyggileg og gagnleg að mörgu leyti og ég er bjartsýnn á að hún muni halda áfram með þeim hætti innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar enda er þar að finna marga hv. þingmenn sem áttu sæti í hinni eldri útgáfu af allsherjarnefnd og eru því vel að sér um þetta mál.

Það er rétt sem fram kom í andsvari hv. þm. Birgis Ármannssonar til hæstv. forsætisráðherra að í ráðuneytinu hefur verið gerð breyting frá því sem meiri hluti allsherjarnefndar lagði til um að fundargerðir ríkisstjórna væru aðgengilegar að loknu einu ári frá ritun þeirra. Nú verða það 15 ár samkvæmt frumvarpinu. Þetta er ég að sjá í dag þegar frumvarpið er lagt fram og ég hef í sjálfu sér ekki farið í smáatriðum yfir frumvarpið eða þær breytingar sem ráðuneytið leggur til. En að meginefni eru þessi þrjú meginstef sem ég hef farið yfir, óbreytt og eru mjög jákvæð og mjög til bóta.

Hvað varðar aðgengi að fundargerðum þurfum við að fara yfir það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ræða að nýju þau sjónarmið sem uppi voru. Það er nefnilega líka þannig að með breytingunum á lögum um Stjórnarráð Íslands varð breyting á því hvernig útbúa á þessar fundargerðir og hvað til þeirra er fært þannig að þær eru ítarlegri en áður. Þetta þarf auðvitað að skoðast líka í því samhengi. Þetta er vinna sem fram undan er og ég ætla svo sem ekki að hafa mörg orð um það en vil árétta það sjónarmið sem lá að baki þessari miklu opnun á vinnugögnum eða fundargerðum ríkisstjórna. Hún hefði falið í sér að við værum með ein framsæknustu upplýsingalög hins vestræna heims, leyfi ég mér að fullyrða, án þess að hafa farið í einhverja vísindalega úttekt á því en ég þekki ágætlega mismunandi lagaumhverfi fjölmiðla og upplýsingalög í Evrópu og leyfi mér að fullyrða að fá ríki ganga jafnlangt. En það er líka ákveðin ástæða fyrir því. Við erum að gera margháttaðar breytingar á þessu umhverfi eins og ég hef lýst, ekki bara í upplýsingalögum og lögum um Stjórnarráð Íslands heldur líka í fyrirhuguðum breytingum á sjálfum grundvallarsáttmála samfélags okkar, stjórnarskránni og auðvitað þarf þessi vinna að haldast í hendur við það.

Mitt sjónarmið varðandi fundargerðirnar og þessa miklu styttingu var að með því væri tryggt að þegar upplýsingarnar kæmu fram og yrðu opinberar væru þeir stjórnmálamenn sem um véluðu og voru á þessum fundum enn á vettvangi stjórnmálanna, þ.e. ekki væri verið að opna á upplýsingar þegar allir þeir sem sátu fundina eða komu að ákvarðanatökunni væru farnir til annarra starfa eða sestir í helgan stein. Hvort það er eitt ár, fjögur eða sex er kannski eitthvað sem á að ræða en ef þessi rök eru gild eru 15 ár að mínu mati við fyrstu heyrn að minnsta kosti nokkuð langur tími. Ég áskil mér auðvitað rétt til að fara yfir þetta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hlusta á rök með og á móti og velta þessu fyrir mér sjálfur og skipta jafnvel um skoðun ef svo ber undir. Annað eins gerist nú.

Ég fagna því að þetta mál er komið fram að nýju og með þeim breytingum sem það boðar.