140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

upplýsingalög.

366. mál
[17:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrst vildi ég geta þess að eins og við höfum rætt í dag urðu ýmsar breytingar á þessu frumvarpi í meðförum allsherjarnefndar á síðasta þingi. Ég vil nota þetta tækifæri við 1. umr. til að draga enn sterkar fram en ég gerði áðan áhyggjur mínar af fyrst og fremst 6. og 8. gr. og að einhverju leyti hugsanlega túlkun á 10. gr. Ég kem inn á hana síðar, en í 6. og 8. gr. er meðal annars fjallað um vinnugögn og þar tel ég að nefndin þurfi að fara í verulega skoðun vegna þess að ég hef áhyggjur af að sum ákvæði, sérstaklega í 8. gr., skapi möguleika á túlkun til þrengingar á upplýsingarétti almennings og fjölmiðla.

Ég nefndi líka 10. gr. Þar sé ég í fljótu bragði eina breytingu, í 3. tölulið 10. gr. þar sem fjallað er um að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum sem varða efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins. Ég skal játa, hæstv. forseti, að ég tel að þarna geti verið um lögmæt og eðlileg sjónarmið að ræða. Auðvitað geta efnahagslega mikilvægir hagsmunir rökstutt að upplýsingum sé haldið leyndum. Ég viðurkenni það sem prinsipp. Ég velti hins vegar fyrir mér og bið þá nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar, hvort sem um verður að ræða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða allsherjar- og menntamálanefnd, þessar tvær nefndir held ég að hafi verið nefndar til sögunnar í sambandi við þetta frumvarp, að tryggja að hættan á því að 3. töluliður 10. gr. verði ekki misnotaður. Nefndin þarf að fara gaumgæfilega yfir það hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til að um slíka efnahagslega mikilvæga hagsmuni geti verið að ræða.

Sú staða getur komið upp, og það skal ég viðurkenna, að efnahagslega mikilvægir hagsmunir, einhverjir úrslitahagsmunir ríkisins í efnahagslegu tilliti, geti verið slíkir að ekki sé hægt að veita allar þær upplýsingar sem fjölmiðlar eða einstakir borgarar hafa áhuga á að fá. Hins vegar er orðalagið mjög opið og getur náð til mjög margra þátta, í mörgum tilvikum til þátta sem einmitt kann að vera mikil ástæða fyrir fjölmiðla og almenning að hafa áhuga á, þátta sem geta skipt miklu máli í pólitísku samhengi. Þó að ég ætli ekki að gera það tortryggilegt að þetta ákvæði sé sett hérna inn um möguleika til takmörkunar í sambandi við efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins verð ég að árétta að þarna er um afar vandmeðfarið og viðkvæmt ákvæði að ræða. Á sama hátt og það geta verið mjög mikilvægir hagsmunir af því að upplýsingum sé haldið í trúnaði í algjörum undantekningartilfellum eru efnahagslega mikilvægir hagsmunir ríkisins oftast nær þess eðlis að þeir eiga einmitt að vera ræddir fyrir opnum tjöldum.