140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

embætti forseta Alþingis.

[10:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra segir að sér séu lögð orð í munn sem hún hefur aldrei sagt en ítrekar í sömu ræðu það sem hún hefur sagt þess efnis að hún hafi ekki enn lagt til að skipt verði um forseta eins og það sé bara í hennar valdi að leggja til breytingu og þá verði hún framkvæmd.

Jafnframt lýsir hæstv. forsætisráðherra því yfir að embætti forseta Alþingis sé í eigu Samfylkingarinnar og það geti vel komið til þess að Samfylkingin ákveði að gera breytingar hvað varðar stöðu forseta Alþingis. Þetta er staðfesting þess að hæstv. forsætisráðherra skilur ekki stöðu forseta Alþingis og aðgreiningu framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins.

Jafnframt er hæstv. forsætisráðherra farinn að blanda saman nefndaskipan og kjöri forseta Alþingis. (Gripið fram í: Ha?) Ég veit ekki hversu oft Samfylkingin hefur skipt um menn í nefndum sínum, þar með talið forsætisnefnd. En það hefur ekkert með þetta að gera. Það er Alþingi sem kýs forseta svo að enn staðfestir hæstv. forsætisráðherra að hún skilur ekki stöðu sína gagnvart Alþingi.

Jafnframt ítreka ég spurningu mína (Forseti hringir.) varðandi hæstv. utanríkisráðherra. Vill hæstv. forsætisráðherra lofa mér því, gera mér þann greiða að vera góð við hæstv. utanríkisráðherra? (Forseti hringir.) Er hæstv. forsætisráðherra sammála mér um það að ómaklega hafi verið vegið að utanríkisráðherranum og það kunni að skýra undarlega (Forseti hringir.) hegðun hans undanfarna daga?