140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

embætti forseta Alþingis.

[10:39]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra geti alveg séð um sig sjálfur. Ég þarf ekki að vera sérstaklega góð við hann. Mér fannst hann svara vel þeim spurningum sem til hans var beint um daginn. Það átti fullan rétt á sér. Hann hefur alltaf getað svarað fyrir sig sjálfur þannig að það er óþarfi að ég fari að leggja einhverja lykkju á leið mína til að vera sérstaklega góð við hann. Það er algjör óþarfi.

Varðandi forseta þingsins þá er það bara þannig að mannaskipti í embættum þingsins, hvort sem það er forseti eða varaforseti, hafa ávallt verið álitin innanflokksmál viðkomandi flokka hvað sem líður skipunartíma viðkomandi einstaklinga samkvæmt þingsköpum. (Gripið fram í.) Varðandi þingsköpin stendur þar að kosning forseta og varaforseta eigi að gilda allt kjörtímabilið. (SDG: Hún svarar ekki …) Þurfti hv. þingmaður ekki að bera það undir þingið og fá jafnvel 32 undirskriftir fyrst honum datt í hug að skipta út sínum ágæta varaforseta? (Gripið fram í.) Hv. þingmaður vill ekkert svara (Forseti hringir.) því en þessi mál eru eðlislík og það er óþarfi að vera með útúrsnúninga í þessu máli, algjör óþarfi.