140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

embætti forseta Alþingis.

[10:52]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir greip fram í og sagði, listinn er algerlega á hennar ábyrgð. Hún hefur fullan rétt til að gera það sem hún vill í því efni.

Það er ekki bara kosning forseta heldur líka varaforseta sem á að gilda allt kjörtímabilið og við höfum skipt um varaforseta. Í þingsköpum stendur, með leyfi forseta:

„Þingið getur þó, hvenær sem er, kosið að nýju […] ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um og fellur þá hin fyrri kosning úr gildi er ný kosning hefur farið fram.“

Þetta á líka við um varaforseta. Ég varð ekki vör við að fram færi nein söfnun á undirskriftum þegar varaforseti þingsins Siv Friðleifsdóttir vék úr embætti. Ég held að það hafi ekki verið hennar vilji.

Ég skal svara spurningu hv. þingmanns beint: Ég mun ekki skrifa undir þennan lista.