140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum afskaplega viðamikið mál, skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Ég ætla að byrja á fyrirtækjunum. Mjög mörg fyrirtæki eru enn í eigu banka sem eru aftur undir stjórn ríkisins og þótt þetta hafi kannski ekki alveg eyðilagt samkeppni í landinu hefur það skaðað hana verulega.

Þá er vilji til fjárfestinga mjög lítill og það er kannski það sem helst er hægt að saka hæstv. ríkisstjórn um, að hafa ekki búið til þannig umhverfi að einstaklingar og fyrirtæki sjái sér hag í því að fjárfesta. Afleiðingin er stöðnun og kyrrstaða og afleiðingin af því er svo skortur á atvinnu.

Þá kem ég að heimilunum. Heimilin hafa orðið að líða fyrir það að margir hafa misst vinnuna, orðið atvinnulausir, sem er alveg skelfilegt. Þá hafa mjög margir misst yfirvinnu, yfirborganir og annað slíkt og lækkað í launum sem er líka mjög slæmt því að þá bregðast allar forsendur. Svo hefur verðlag hækkað mjög mikið í kjölfar hrunsins, bæði á framfærslu og lánum, þannig að heimilin eru í mjög slæmri stöðu. Mér finnst allar aðgerðir beinast að þeim heimilum sem eru í mjög slæmum málum. Það hefur orðið til nýtt hugtak sem er millistéttaraulinn. Það er sá aðili sem stendur í skilum og borgar og borgar en fær hvergi neina hjálp. Ég held að hv. Alþingi þurfi að fara að skoða virkilega hvernig við hjálpum þeim sem hafa staðið í skilum, fóru ekki offari í fjárfestingum en eru í mjög slæmri stöðu í dag vegna þess að forsendur hafa breyst og tekjurnar minnkað en skuldbindingarnar, m.a. vegna framfærslu barna, hafa aukist. Þessar fjölskyldur eru í rauninni í mjög dapurlegri stöðu og enginn gerir neitt fyrir þær.