140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:26]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Forsætisráðherra spyr hvort verið sé að draga óhæði skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands í efa. Ég hlýt að svara því játandi. Það er slæmt ef við getum ekki treyst skýrslum aðila eins og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Reyndar er það kannski ekkert nýtt. Við munum öll eftir skýrslu sem bar heitið Fjármálalegur stöðugleiki á Íslandi, hún hefur reyndar gengið undir öðrum nöfnum líka.

Ég hlýt að gera athugasemd við óhæði skýrslu sem byggir meginniðurstöður sínar annars vegar á fréttatilkynningum Samtaka fjármálafyrirtækja og hins vegar á lagatúlkunum sem varla falla undir sérsvið Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Spurningunni um svigrúmið er enn ekki svarað og spurningunni sem öllu skiptir — hvað kostar að gera ekki neitt, hvað kostar þetta ástand, þetta frost? — er algjörlega ósvarað.

Hreyfingin hefur lagt fram til oddvita ríkisstjórnarflokkanna tillögur um hvernig hægt sé að fjármagna almenna leiðréttingu. Þær hugmyndir byggja á því að ekki komi högg á ríkissjóð eða efnahagsreikning fjármálafyrirtækjanna og næst munum við leggja fram þingmál sem byggir á þessari leið og ég hvet þingheim allan til að kynna sér það þegar það kemur fram.