140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Magnúsar Orra Schrams held ég að almenningur eigi það skilið að ESB-sértrúarsöfnuðurinn útskýri hvar á að fá peningana í björgunarsjóðinn sem fátækar þjóðir í Evrópu eiga nú að reiða fram ef menn ræða nú í alvöru um evru. Það dugar ekki að draga upp einhverja mynd sem stenst enga skoðun þegar menn ræða hér mál eins og skuldamál heimilanna. Ég vek athygli á því, af því að hér hefur réttilega verið bent á að hæstv. forsætisráðherra sé í litlum tengslum við raunveruleikann, að nú hefur fólki fjölgað um 3 þús. á milli ára á vanskilaskrá.

Störf eru færri núna en þau voru árið 2009, fjárfesting er í lágmarki og fleira mætti nefna. Það sem einkennir þessa umræðu er það sem við vitum ekki. Hæstv. ríkisstjórn setti í stjórnarsáttmálann að hér ætti að vera opið og gagnsætt stjórnkerfi. Það gleymdist að setja fyrir aftan: „Djók.“ Við erum ekki enn búin að fá hluthafasamkomulagið um bankana. Við erum búin að spyrjast fyrir um upplýsingar hvað eftir annað. Ég hef reynt frá því í september að fá þessar upplýsingar. Allt var reynt, kallað var eftir lögfræðingum úti í bæ í hæstv. fjármálaráðuneyti til að reyna að koma í veg fyrir að ég fengi þær upplýsingar og þegar ég fékk þær voru þær bara brot af því sem ég bað um.

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra einnar spurningar: Mun hún beita sér fyrir því að þær sjálfsögðu upplýsingar sem við hefðum átt að fá þegar langstærsta einkavæðing Íslandssögunnar fór fram á bönkunum að hv. þingmenn og almenningur fái upplýsingar um það? Fyrr getum við ekki rætt þessi mál út frá staðreyndum.

Ég minni á að gengislánin voru ólögleg. Hæstv. ríkisstjórn gekk fram með lagasetningu og sá til þess að sá sem braut af sér fengi að ákveða refsinguna. Að koma hér og segja að (Forseti hringir.) í þessum reikningum sé eitthvað um leiðréttingu lána er afskaplega sérkennilegt. Þetta voru ólögleg lán, virðulegi forseti.