140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:37]
Horfa

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um skuldastöðu heimila og fyrirtækja sem hófst reyndar á mikilli umræðu um nýja skýrslu. Ég ætla að einbeita mér sérstaklega að skuldastöðu heimila, enda tel ég brýnt að halda umræðunni vakandi og að við hér á Alþingi getum farið yfir það saman sem gert hefur verið og rætt hreinskilnislega hvernig til hefur tekist. Ekki er þörf á að ræða aðdragandann í löngu máli, við þekkjum söguna af því hvernig auðvaldið lék okkur grátt og afleiðingarnar eru jafnframt kunnar. Margir eiga um sárt að binda og sjá ekki fram úr vandanum. Fólk hefur upplifað reiði, örvæntingu og jafnvel misst traust á getu okkar hér inni til að leysa vandann. Ég geri því ekki lítið úr þeim mikla vanda sem margir standa frammi fyrir í kjölfar hrunsins.

Ýmislegt hefur þó verið gert. Vaxtabætur hafa verið hækkaðar verulega til að koma til móts við aukinn vaxtakostnað, hin svokallaða 110%-leið hefur sömuleiðis hjálpað mörgum. Um leið hefur verið gripið til margra sértækari aðgerða, greiðsluaðlögunar, gjaldþrotalögum hefur verið breytt og margt fleira. Það er því langt frá því að hægt sé að halda því fram með réttu að ekkert hafi verið gert, líkt og oft er sagt.

Við þurfum engu að síður að halda áfram að vinna að lausn á vandanum og legg ég áherslu á samvinnu allra í þeim efnum, jafnt innan þings sem utan, og bendi ég sérstaklega á ábyrgð banka og lífeyrissjóða í því tilliti. Ég vona til dæmis að við getum sameinast um að finna sanngjarna lausn fyrir það fólk sem ekki hefur getað nýtt 110%-leiðina vegna lánsveða. Ég bind miklar vonir við að nýr hæstv. fjármálaráðherra, Oddný Harðardóttir, beiti sér fyrir sanngjarnari lausn á vanda þessa hóps líkt og hún hefur þegar rætt um í fjölmiðlum.