140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að eiga orðastað við hv. þingmenn Framsóknarflokksins. Það er tómur útúrsnúningur sem mætir manni. Hv. þingmaður sem hér talaði leyfir sér að halda því fram að það hafi bara ekkert breyst og að ástandið sé síst betra en 2010. Hvar hefur hv. þingmaður verið? Það eru margar tölur því til staðfestingar sem ég fór yfir áðan. Vanskilin hafa minnkað, skuldir heimilanna minnkað um 10%, kaupmáttur hefur aukist um 3,7%, við höfum lagt 50 eða 60 milljarða í vaxtaniðurgreiðslur. Það hafa farið verulegir fjármunir, eins og við höfum farið yfir, í að fella niður skuldir heimilanna. Staðan er bara miklu betri.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson heldur því fram að ég hafi sagt að skuldir heimilanna væru bara ekkert vandamál. Hvers lags útúrsnúningur er þetta? (Gripið fram í.) Mér er algjörlega misboðið að menn skuli halda því fram. (Gripið fram í.) Vissulega eru vandamál til staðar hjá mörgum heimilum þó að við höfum lagt alla þessa fjármuni og farið í allar þessar 50–60 aðgerðir til að slá verulega á vandann, sem okkur hefur tekist sem betur fer. (Gripið fram í.) Þið, ágætu herramenn, ættuð að viðurkenna það líka en ekki vera alltaf með þetta svartagallsraus.

Það er ýmislegt sem við þurfum að gera. Við getum ekki farið í 200 milljarða aðgerðir. Ég held að allir sanngjarnir menn sjái það, (Gripið fram í.) en við getum farið í málin varðandi lánsveðin. Það eru 1.447 einstaklingar með lánsveð, þeir fengu þau á árunum 2005–2008 þegar þeir keyptu sína fyrstu íbúð, 1.795 eru með lánsveð sem keyptu þá sína aðra íbúð. Við eigum að snúa okkur að því að leysa það mál, það er sérstök ráðherranefnd hjá mér að skoða það. Vonandi fáum við niðurstöður í því máli í næsta mánuði.

Við eigum líka að skoða verðtrygginguna, en hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson á líka að skoða hana í tengslum við þann gjaldmiðil sem við erum með og hvað það þýðir ef við förum að afnema verðtrygginguna án þess að skoða það mál í leiðinni. (GBS: Þú ert búin að tala um þetta í 25 ár.) ASÍ hefur meðal annars talað um (Forseti hringir.) að verðtryggingin (GBS: … 25 ár?) hér og krónan, til hvers hún hefur leitt í minnkandi kaupmætti og hvað fólk þarf að borga miklu meira í vexti. En snúum okkur að því, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) hvað raunverulega er hægt að gera en ekki vera í einhverju villuljósi um fortíðina og villa um fyrir fólki með hvað búið er að gera og hvað hægt er að gera.