140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

háskólar.

468. mál
[12:14]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir framlagningu þessa frumvarps. Það er afar mikilvægt og í því er að finna löngu tímabær ákvæði í ýmsum greinum sem rétt er að vekja athygli á eins og hæstv. ráðherra gerði í ræðu sinni.

Fyrst er að telja þau ákvæði sem koma fram í 2. gr. frumvarpsins og lúta að hinu akademíska frelsi. Með þeim er verið að koma til móts við gagnrýni sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, ekki síst þá að kveðið sé skýrt á um fræðilegt sjálfstæði starfsmanna háskólanna sem háskólum landsins sé skylt að virða. Einnig er mikilvægt hið faglega sjálfstæði háskólanna sjálfra gagnvart bæði eigendum sínum og ekki síður þeim sem leggja skólunum til fé. Við þekkjum öll umræðuna um fjármögnun prófessorsembætta af tilteknum fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum í landinu sem varð ákveðin tíska hér á landi á árunum fyrir hrun og þá hættu á hagsmunaárekstrum sem slíkt fyrirkomulag getur skapað. Það er því full ástæða til að fagna því að komið sé skýrt ákvæði sem kveður á um að háskólarnir eigi að hafa skilyrðislaust fræðilegt sjálfstæði hvað þetta varðar.

Ég fagna sömuleiðis ákvæði 2. gr. sem kveður á um að háskólarnir skuli setja sér siðareglur, m.a. um réttindi og skyldur starfsmanna sinna. Þar væri til dæmis eðlilegt að kveða á um gagnsæja upplýsingagjöf um fjárhagsleg hagsmunatengsl háskólafólks rétt eins og gert er með alþingismenn hjá þessari stofnun.

Í 3. gr. er nýtt ákvæði þess efnis að háskólar skuli ekki reknir með fjárhagslegan ágóða að markmiði. Ég tel að þetta sé eðlilegt ákvæði, ekki síst með hliðsjón af reynslu sem við fengum meðal annars á síðasta vetri af Menntaskólanum Hraðbraut og fjallað var um í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Þá er ástæða til að vekja athygli á og fagna 13. gr. sem fjallar um þjónustu við nemendur með fötlun og tilfinningalega eða félagslega örðugleika eins og það er orðað, sem og nemendur sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi. Það vekur að vísu athygli mína að ákveðin aðgreining er gerð í ákvæði 13. gr. hvað þessa hópa varðar. Mjög skýrt er kveðið á um að háskólunum skuli vera skylt að veita nemendum með fötlun og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika kennslu og sérstakan stuðning í námi en hins vegar er sagt að þeir skuli leitast við að veita nemendum sérstakan stuðning sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi. Ég velti fyrir mér hvort einhver efnisleg rök séu fyrir þessari aðgreiningu og tel að við í hv. allsherjar- og menntamálanefnd eigum að skoða hvort ekki eigi eitt yfir alla að ganga hvað þetta varðar.

Ég tel reyndar að eitt mikilvægasta viðfangsefni menntakerfisins, ekki bara í háskólunum heldur kannski enn þá frekar á lægri skólastigum, sé að ræða hvernig við getum boðið upp á samræmda og ég vil segja mannsæmandi þjónustu við nemendur sem glíma við ýmsa sértæka námsörðugleika, sama af hvaða rótum þeir eru sprottnir. Það þarf auðvitað að gerast fyrst og fremst í grunnskólunum en einnig í framhaldsskólum og jafnvel háskólum. Það má ekki vera háð því í hvaða skóla nemendur stunda nám eða hvar þeir búa á landinu hvort þeir fá viðunandi þjónustu eða ekki, en það er að einhverju leyti fyrir utan viðfangsefni þessa frumvarps.

Það er sem sé margt afar gott og tímabært í þessu frumvarpi um háskóla en ég vil þó að endingu gera athugasemd við eitt. Ég tel að lítið sé tekið á því sem kannski er eitt mikilvægasta verkefnið í háskólasamfélagi okkar og er þörfin fyrir nánari samvinnu og jafnvel sameiningu einhverra þeirra sjö háskóla sem starfa í landinu, ekki sameiningu sameiningar vegna heldur sameiningu þar sem ljóst er að hún skilar auknum gæðum náms og er hagkvæm að auki. Við þingmenn Samfylkingarinnar í þessari nefnd leggjum mikla áherslu á að það tækifæri sem gefst með þessu frumvarpi til laga um háskóla til að stíga markviss skref í því efni verði nýtt.

Ég tel til dæmis eðlilegt að skoða ákveðnar fyrirmyndir sem við höfum erlendis frá, til dæmis um svokallaðar samstæður allra háskóla á tilteknum svæðum óháð rekstrarformi, en í Bandaríkjunum er slíkur vettvangur til að mynda nýttur til að bæta samstarf og auka verkaskiptingu á milli skóla. Hér væri full ástæða til að skoða hvort hægt sé að draga úr offramboði á sama eða sambærilegu námi á fámennum námsbrautum og nýta betur opinbert fjármagn til háskóla. Hægt væri að stíga fyrsta skrefið í slíka átt með því að setja á fót sjálfstæða stjórnsýslunefnd háskólastigsins sem skipuð væri ekki fulltrúum háskólanna sjálfra heldur sérfræðingum. Sú nefnd fengi það hlutverk að leggja fram tillögur um nánari samvinnu háskólanna og skoða meðal annars leiðir til að samræma rekstrarform og fjármögnun skólanna, hvort flokka eigi háskóla í rannsóknarháskóla og fagháskóla, eins og við þekkjum víða í nágrannalöndum okkar, og tengist 3. gr. frumvarpsins um löggildingu háskólanna, hvernig megi samnýta búnað og aðstöðu til kennslu og rannsókna o.s.frv.

Ég varpa þessu hér inn í 1. umr. til að vekja athygli á því að ég tel mikilvægt að þetta atriði, eins og mörg þau álitamál sem hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni, til dæmis varðandi doktorsnafnbótina, verði rædd vandlega í nefndinni við meðhöndlun þessa frumvarps.