140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014.

440. mál
[12:26]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Þjónusta við fatlað fólk var flutt frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011 í samræmi við breytingar á lögum um málefni fatlaðs fólks sem þá tóku gildi. Í XIII. ákvæði til bráðabirgða í lögunum er kveðið á um að framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks skuli lögð fram á Alþingi. Þar skuli setja fram stefnu og markvissa aðgerðaáætlun, skilgreinda árangursmælikvarða og skýra forgangsröðun verkefna. Þá skuli tímasetja aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðgengismála, biðlista eftir þjónustu, atvinnumála fatlaðs fólks og samræmds mats á þjónustu.

Starfshópur til að undirbúa þingsályktunartillöguna var skipaður þann 7. júní sl. Formlega samþykkt heildarstefna fyrir málaflokkinn hefur ekki verið fyrir hendi og var m.a. bent á það í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlað fólk í ágúst 2010. Það er mér því mikil ánægja að mæla nú fyrir stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

Hæstv. forseti. Í tillögunni birtist annars vegar stefna í málefnum fatlaðs fólks og hins vegar framkvæmdaáætlun. Stefnan er í meginatriðum sett fram til ársins 2020 en meta þarf hvort samþykkja þurfi breytingar á stefnunni við endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks í árslok 2014.

Stefnan tekur mið af alþjóðlegum skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland undirritaði árið 2007 og er henni m.a. ætlað að tryggja að fatlað fólk komi að stefnumótun og ákvörðunartöku í eigin málum. Meginmarkmið hennar er að tryggja að fatlað fólk njóti jafnréttis, allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra. Það er gert með því að það njóti góðs af öllum almennum aðgerðum stjórnvalda sem eiga að stuðla að jöfnuði svo sem á sviði húsnæðis-, mennta-, trygginga- og atvinnumála.

Í árslok 2010 eða um það leyti sem þjónustan var flutt á milli stjórnsýslustiga ákvað velferðarráðuneytið, áður félags- og tryggingamálaráðuneytið, að ráðast í nokkuð viðamikla úttekt á stöðu fatlaðs fólks. Niðurstöður þeirrar úttektar voru kunngerðar í október sl. og var m.a. horft til þeirra við mótun framkvæmdaáætlunarinnar. Framkvæmdaáætlunin var sett fram til þriggja ára, 2012–2014, og byggir hún á átta málasviðum. Þau eru eftir stafrófsröð: Aðgengi, atvinna, félagsleg vernd/sjálfstætt líf, heilbrigði, ímynd og fræðsla, jafnrétti, menntun, þátttaka.

Innan hvers málasviðs eru fjögur til átta verkefni með skilgreindu markmiði og mælikvarða. Gert er ráð fyrir að framkvæmdaáætlunin verði endurskoðuð að þremur árum liðnum þegar komin verður reynsla á flutning þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga og lög um málefni fatlaðs fólks hafa verið endurskoðuð.

Rauði þráðurinn í verkefnunum er að tryggja fötluðu fólki aðgang að samfélaginu þannig að það geti tekið þátt í því til jafns við aðra. Þannig er það ekki skerðing einstaklingsins sem veldur minni þátttöku í samfélaginu heldur umhverfi sem ekki gerir ráð fyrir þeim fjölbreytileika sem mannfólkið býr yfir. Með því að breyta hugsunarhætti og viðhorfum til þeirra sem búa við skerðingu og aðlaga manngert umhverfi að allra þörfum vinnum við að því að jafna stöðu þeirra sem búa við skerðingu og bættum lífskjörum allra.

Velferðarráðuneytið hefur heildarumsjón með framkvæmd áætlunarinnar og hefur einnig umsjón með tilteknum aðgerðum en verkefnin ná einnig inn á borð innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Þá ber þjónustusvæði, sveitarfélög og eftir atvikum aðrir aðilar, ábyrgð á einstökum aðgerðum og leggja mat á þær í samræmi við mælikvarða sem tilgreindir eru innan hverrar aðgerðar.

Nokkrir hópar eru nú að störfum með það að markmiði að bæta réttindi og lífskjör fatlaðs fólks Nefnd um réttindagæslu fatlaðs fólks hefur nú skilað af sér reglugerð um trúnaðarmenn fatlaðs fólks, vinna við frumvarp um aðgerðir til að draga úr nauðung við fatlað fólk er á lokastigi og frumvarp um réttindagæslu fatlaðs fólks er nú orðið að lögum. Verkefnisstjórn til að leiða samstarfsverkefni um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar hefur verið að störfum síðan í maí 2011 og hefur hún unnið að því að móta ramma um fyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar við fatlað fólk. Á næstunni verður kynnt hugmyndafræði, framkvæmd og skipulag slíkrar þjónustu en samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um málefni fatlaðs fólks skulu sveitarfélög í samráði við verkefnisstjórnina leitast við að bjóða fötluðu fólki notendastýrða persónulega þjónustu í tiltekinn tíma. Verkefninu á að ljúka fyrir árslok 2014 með faglegu og fjárhagslegu mati á framkvæmd þess.

Þá var skipaður starfshópur um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks. Hlutverk hópsins er að fara yfir og skilgreina hvað telst vera atvinnutengd endurhæfing einstakra hópa í skilningi laga um vinnumarkaðsaðgerðir.

Samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks tók til starfa í febrúar í fyrra. Hlutverk nefndarinnar er m.a. að vera velferðarráðherra og sveitarfélögum til ráðgjafar um málefni fatlaðs fólks, hafa umsjón með framkvæmd yfirfærslunnar, stýra endurmati á yfirfærslunni og fjalla um vafamál og álitaefni sem upp kunna að koma. Nefndin hefur fylgst með framkvæmd verkefnisins og almennt er hægt að segja að yfirfærslan hafi gengið vel. Önnur verkefni nefndarinnar hafa tengst yfirferð á niðurstöðum samræmda þjónustumatsins eða SIS-matsins sem lá fyrir um miðjan maí. Þá hefur verið gengið frá nýjum samningi við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins um næsta áfanga varðandi samræmt mat á þjónustuþörf fatlaðra. Samráðsnefndin hefur jafnframt hafið undirbúning að því að skoða alla mögulega kosti varðandi það hvaða matskerfi er notað eftir að endurmati yfirfærslunnar lýkur árið 2014. SIS-matið og allir aðrir mögulegir kostir eru undir í þeirri skoðun og hefur Rannsóknar- og þjónustumiðstöð Háskólans á Akureyri tekið að sér að vinna það verk. Þá hefur samráðsnefndin gert tillögu um ráðstöfun á svokölluðum breytingarkostnaði til sveitarfélaga og fylgst með greiningu kostnaðar og þróun tölfræðiupplýsinga sem jöfnunarkerfið byggir á og eru þau verkefni í góðum farvegi.

Framkvæmd stefnunnar sem mótuð er með þingsályktunartillögu þessari mun hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir þá aðila sem eiga að sjá um undirbúning og framkvæmd stefnunnar. Heildarkostnaður skiptist á þrjú ár, þ.e. 2012, 2013 og 2014, og er hann lauslega áætlaður um 150 millj. kr. Ljóst er að hægt er að ná markmiðum allmargra þátta með breyttum vinnuaðferðum án þess að það leiði til kostnaðarauka og nokkur verkefni er hægt að framkvæma innan núverandi fjárheimilda af framkvæmdaaðilum.

Að lokum get ég þess að í febrúar 2008 hóf nefnd störf er kanna skyldi hvort lög og reglugerðir hér á landi uppfylltu kröfur sem lagðar eru á þau ríki sem fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Nefndin skilaði tillögum í janúar 2010 og þegar hefur verið brugðist við og hrundið í framkvæmd nokkrum af þeim tillögum sem þar voru lagðar fram. Í framkvæmdaáætlun þeirri sem hér er lögð fram er gert ráð fyrir að skipuð verði samstarfsnefnd um að undirbúa fullgildingu samningsins. Yfirfara þarf löggjöf og leggja til breytingar í samræmi við samninginn. Jafnframt er lagt til að íslensk þýðing samningsins verði endurskoðuð og þeirri vinnu ljúki fyrir sumarið. Frumvarp verði svo lagt fram á löggjafarþingi 2012–2013.

Með samþykkt framvæmdaáætlunar þeirrar sem hér er lögð fram er haldið áfram á þeirri braut sem miðar að því að vernda og tryggja að allt fatlað fólk njóti fullra og jafnra mannréttinda og frelsis, auk þess að vinna að virðingu fyrir meðfæddri göfgi fatlaðs fólks.

Það er tillaga mín að þessi þingsályktunartillaga fari til umfjöllunar hjá hv. velferðarnefnd.