140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[13:41]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar tókum þátt í stofnun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Bretton Woods árið 1944. Við höfum alltaf verið fullgildir meðlimir í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ég vil að við séum það áfram. Þess vegna greiði ég atkvæði með þessu máli.

Hvað varðar þá 9 milljarða sem fara yfir í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn munu þeir áfram teljast til gjaldeyrisvarasjóðs Íslendinga og munu veita okkur Íslendingum aðgang að lánsfé á mjög góðum kjörum. Kjörin eru núna 0,15% á kvótann sem við höfum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég mæli því með því að við greiðum atkvæði með þessu máli og sýnum þar með að við (Forseti hringir.) hlítum enn því sem við undirgengumst í Bretton Woods árið 1944.