140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

umhverfisábyrgð.

372. mál
[14:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki eftirfarandi spurningu:

Getur verið að samþykkt svona tillagna í Evrópusambandinu sem gerir samkeppnisstöðu evrópsks efnahagslífs lakari, að minnsta kosti til skamms tíma — reyndar hefur það sýnt sig að þetta getur eflt hana að til langtíma, eftir 20, 30 ár — muni valda meiri mengun í þriðja heiminum, í Kína, á Indlandi og annars staðar, vegna þess að þá verði meira flutt inn frá þeim löndum, meiri eftirspurn verði eftir vörum þeirra, sterkari krafa verði um opnun álvera í Kína, fleiri kolanámur o.s.frv., sem veldur síðan koldíoxíðmengun? Þeirri spurningu var ekki svarað.

Ég er dálítið upptekinn af þessu af því að ég hef alltaf haft á tilfinningunni að við séum stödd á einum hnetti og sú stefna að virkja ekki og reisa ekki fleiri álver á Íslandi þýðir einfaldlega að fleiri álver eru byggð í löndum þar sem rafmagn er framleitt með brennslu jarðefna. Sú stefna að byggja ekki fleiri álver hér þýðir hreinlega miklu meiri mengun. Ég er ekki hrifinn af því að bæta við fleiri álverum vegna þess að ég held að þar séum við komin út fyrir það sem er efnahagslega skynsamlegt en það má gera ýmislegt fleira með virkjanir. Það má til dæmis setja upp netbú eins og hér hefur verið gert og annað slíkt. Allt slíkt dregur úr því að verið sé að framleiða rafmagn annars staðar með brennslu jarðefna sem er margfalt dýrara.

Það sem ég er að tala um, frú forseti, er: Er ekki siðferðileg skylda Íslendinga að nýta eins mikið af hreinni orku okkar til að minnka notkun óhreinnar orku annars staðar?