140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

kjararáð og Stjórnarráð Íslands.

365. mál
[14:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 47/2006, um kjararáð, með síðari breytingum og lögum nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um kjararáð og lögum um Stjórnarráð Íslands. Í fyrsta lagi er lagt til að skrifstofustjórar í Stjórnarráðinu verði ekki lengur taldir upp í 1. gr. laganna, í öðru lagi er lagt til að kjararáði verði heimilað að ráða sér skrifstofustjóra sem annist daglega starfsemi ráðsins, í þriðja lagi er lagt til að kjararáð geti vikið frá launaviðmiði við föst laun forsætisráðherra í rökstuddum tilvikum ef slík viðmiðun mundi leiða til verulegs misræmis við markmið 8 gr. laganna og í fjórða lagi er lögð til breyting á lögum um Stjórnarráð Íslands til samræmis við breytingar á lögunum um kjararáð samkvæmt frumvarpinu.

Með úrskurði kjararáðs frá 7. júní 2007 úrskurðaði ráðið að ákvörðun um laun og starfskjör skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu, annarra en skrifstofustjóra starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, heyrðu ekki undir ráðið. Með lögum frá 2007 um breytingu á lögum um kjararáð voru skrifstofustjórar síðan færðir aftur undir ákvörðunarvald kjararáðs.

Forsætisráðherra skipaði nefnd í desember 2009 sem fékk það verkefni að gera tillögur að endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands og eftir atvikum öðrum lagareglum sem lutu að starfsemi Stjórnarráðsins og stjórnsýslu hér á landi. Nefndin skilaði skýrslu sinni í desember 2010 sem ber heitið Samhent stjórnsýsla. Í skýrslunni og tillögum nefndarinnar er meðal annars vikið að kjörum starfsmanna Stjórnarráðsins. Í 8. kafla skýrslunnar kemur fram að nefndin mæli með því að hugað verði að grundvallaratriðum í mannauðsmálum, svo sem starfsþróun starfsmanna, starfsumhverfi þeirra og starfskjörum. Í sambandi við starfskjör starfsmanna Stjórnarráðsins lagði nefndin til að sérstaklega yrði skoðað hvort færa ætti skrifstofustjóra undan ákvörðunarvaldi kjararáðs og þeir semdu um kaup og kjör.

Með frumvarpi þessu er lagt til að skrifstofustjórar í Stjórnarráðinu verði felldir út úr upptalningu í 1. gr. laganna. Kjararáð getur því, ef frumvarpið verður samþykkt, tekið á ný til skoðunar hvort ákvörðun um laun og starfskjör skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu skuli heyra undir kjararáð. Í greinargerð með frumvarpinu er einnig vikið að því hvort ekki sé rétt til samræmis að kjararáð taki til skoðunar hvort sömu sjónarmið eigi ekki að gilda um ákvörðun um laun og starfskjör sendiherra, samanber lög um utanríkisþjónustu Íslands.

Sú leið sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins var kynnt fyrir skrifstofustjórum í Stjórnarráðinu á tveimur fundum, auk rafrænnar skoðanakönnunar. Jafnframt ræddi hver og einn ráðuneytisstjóri breytinguna við skrifstofustjóra sína. Ráðuneytisstjórar voru þessari breytingu fylgjandi og einnig tryggur meiri hluti skrifstofustjóra.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að kjararáði verði heimilt að ráða sér skrifstofustjóra sem annist daglegan rekstur og beri ábyrgð á honum gagnvart kjararáði. Fram til skipunar núverandi kjararáðs hefur formaður ráðsins annast daglegan rekstur í fullu starfi. Starfsmaður í hálfu starfi hefur verið starfandi hjá ráðinu við hlið formanns ráðsins, sem hefur annast daglegan rekstur í fullu starfi þrátt fyrir að heimild til þess hafi ekki verið bundin í lög. Hér er því í raun verið að fækka um hálft stöðugildi í rekstri sjóðsins og ætti launakostnaður því að lækka.

Með lögum nr. 148/2008 var kjararáði og falið að lækka laun þeirra sem heyrðu undir kjararáð, auk þess sem ráðinu var óheimilt að hækka laun til ársloka 2009. Með lögum nr. 127/2009 var bann þetta framlengt til 30. nóvember 2010. Sá árangur sem náðist frá því að lög nr. 87/2009 voru sett gerði það að verkum að ákveðið var að stíga skref í þá átt að færa til baka þau ákvæði sem ætlað var að vara tímabundið og var bannið því ekki framlengt.

Með lögum nr. 87/2009, um breytingu á lögum um kjararáð, var 8. gr. laganna breytt á þann veg að kjararáð skyldi gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands, yrðu ekki hærri en föst laun forsætisráðherra. Meginmarkmið frumvarps þess er varð að lögum nr. 87/2009 var að laga rekstur ríkisins að gjörbreyttum efnahagslegum raunveruleika til þess að mæta stórfelldum tekjusamdrætti vegna efnahagskreppunnar.

Með 3. gr. frumvarpsins er stigið það skref að leggja til að kjararáð geti vikið frá launaviðmiði við föst laun forsætisráðherra í rökstuddum tilvikum ef slík viðmiðun mundi leiða til verulegs misræmis við markmið 8. gr. laganna. En við úrlausn mála skal kjararáð, samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 8. gr. laganna, gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Einnig skal kjararáð, samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laganna, ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.

Með 4. gr. frumvarpsins eru síðan lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands til að kjararáð taki sjálfstæða ákvörðun um laun og starfskjör aðstoðarmanna ráðherra. Ef kjararáð ákveður að það heyri ekki til þess að úrskurða um kjör skrifstofustjóra mundi viðmiðið við kjör skrifstofustjóra ekki eiga lengur við um aðstoðarmenn ráðherra.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. fjárlaganefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.