140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

samskipti ráðherra við samninganefnd ESB.

[15:07]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Æfingar hv. þingmanns til að reyna að gera þessa fundaferð til Brussel tortryggilega eru dæmalausar sem og að því hafi verið eitthvað sérstaklega hagrætt eða að Evrópusambandinu borist njósn af því að það kynnu að verða breytingar á ríkisstjórn og þess vegna sett upp einhverjar aðrar dagsetningar fyrir fundina. Allt er þetta þvæla og það er hægt að sýna fram á það með skjölum ef hv. þingmaður vill, væntanlega í samskiptum milli ráðuneytisins og sendiráðsins í Brussel og Evrópusambandsins, að öðruvísi var í pottinn búið.

Hið rétta í málinu er, ef hv. þingmaður og fyrirspyrjandi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur áhuga á að heyra það, að fljótlega eftir að ég kom í ráðuneytið, í janúarbyrjun, var ég spurður hvort ég hygðist halda við þá heimsókn til Brussel sem forveri minn hafði ákveðið, gengið frá og sett upp dagsetningar fyrir og þegar gengið frá tveimur fundum. Ég sagði: Já, við skulum bara láta það standa. Forveri minn hefur talið mikilvægt að fara í þessa ferð og við látum það þá standa.

Þannig er þetta vaxið, hv. þingmaður. Mér þykir miður (Forseti hringir.) að þá hrynur kannski ein af mörgum samsæriskenningum en það eru engar stoðir fyrir henni.