140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

stuðningur við afreksfólk í íþróttum.

[15:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda. Það er gott að við ræðum þessi mál hér á þingi. Það verða Ólympíuleikar í London í ár og meðal annars þess vegna var samþykkt aukning á framlögum til afrekssjóðs, úr 24,7 milljónum í 34,7. Líka var samþykkt framlag til Ólympíuleika sem á raunar að mínu viti ekki að vera tímabundið framlag heldur varanlegt framlag því að Ólympíuleikar eru haldnir á tveggja ára fresti fyrir utan ýmis önnur ólympísk verkefni. Ég held að það sé nokkuð sem þurfi sérstaklega að skoða við fjárlagagerð.

Hv. þingmaður spyr um stefnu til lengri tíma. Það er rétt að afreksfólk verður ekki til á einni nóttu eða á einum degi og þess vegna þarf að hafa stefnu. Ég vil nefna hér að nýlega var gefin út íþróttastefna mennta- og menningarmálaráðuneytis sem var unnin í samvinnu við aðila í íþróttahreyfingunni. Í þeirri stefnu er einn liður keppnis- og afreksíþróttir. Þar er nefnt, fyrir utan ýmislegt annað sem tengist umgjörðinni, sem dæmi að skólakerfið styðji við afreksíþróttir og að líka verði horft til þess að hvetja atvinnulífið til að styðja við íþróttir. Þá er horft á þessa þrjá stólpa sem hv. þingmaður nefndi. Það er ferðasjóðurinn því að afreksíþróttafólk verður auðvitað til vegna þess að börn og ungmenni alast upp í íþróttastarfi og keppa og því er hann nefndur þar, ef mig misminnir ekki. Það er afrekssjóðurinn sem þarf að efla, ég er algjörlega sammála því, og þótt hann hafi verið hækkaður um 10 milljónir eru 34,7 milljónir ekkert tiltakanlega há fjárhæð í þetta. Síðan sjá auðvitað sérsamböndin um að standa að þátttöku Íslands á alþjóðavettvangi og þar held ég líka að við þurfum að horfa sérstaklega til allra þessara þriggja þátta sem eru nefndir og snúa að keppnis- og afreksíþróttum.

Ég held að það sé mjög mikilvægt, og ég hyggst gera það einhvern tímann á næstunni, að kynna stöðu þessara mála í ríkisstjórninni og fara yfir það hvernig við getum unnið að því að þessi íþróttastefna nái fram að ganga (Forseti hringir.) og hvernig við eigum að vinna að einstökum þáttum hennar.