140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

ríkisfjármögnun Bændasamtakanna.

[15:24]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þekki kannski þessi mál betur frá þeirri hlið sem snýr að samningum ríkisins við Bændasamtökin þegar þeir eru gerðir. Það get ég fullyrt að þá er mjög rækilega farið yfir það til hvaða kostnaðarþátta ríkið leggur fé í gegnum svonefndan búnaðarlagasamning. Ef eitthvað vantar upp á að aðgreining þeirra verkefna í bókhaldi og uppgjöri Bændasamtakanna sé nægjanlega skýrt er það hlutur sem þarf að sjálfsögðu að fara yfir. Ég held að ég geti fullyrt vegna þess að ég hef komið að þessum málum oftar en einu sinni frá hinni hliðinni, fyrir hönd hagsmuna ríkisins í samningagerðinni, að þá er það nákvæmlega sundurgreint og sundurliðað sem ríkið leggur fjármuni til, sem fyrst og fremst tengist leiðbeiningarþjónustu í landbúnaði, tengist uppgjöri á gömlum lífeyrisskuldbindingum, stuðningi til jarðræktarbóta og kynbóta og annarra slíkra þátta. Það er algjörlega á hreinu að í þeim samningum er hvergi að finna neitt sem mundi flokkast sem rekstur Bændasamtakanna sjálfra eða annað í þeim dúr.

Hinn flöturinn sem hér er dreginn upp er hvort innan þess ramma sé starfsemi sem ætti að vera á markaði ef aðilar ættu að geta boðið í. Ekki skal ég sverja fyrir það að af sögulegum ástæðum hafi hluti þessarar uppbyggingar, enda dálítið sérhæfður, verið reistur á félagslegum grunni, t.d. skýrsluhaldið og kynbótabókhaldið og fleira í þeim dúr sem auðvitað er aðlagað þörfum þessarar atvinnugreinar. Annað á sér kannski meira sögulegar rætur í því hvernig þessi grein byggðist upp og þróaðist og þeirri staðreynd að Bændasamtökin, áður Búnaðarfélagið og Stéttasamband bænda, hafa í gegnum tíðina farið með visst stjórnsýsluhlutverk að kalla má í umboði stjórnvalda hvað varðar til dæmis að annast framleiðslustýringu og greiða stuðninginn (Forseti hringir.) sem ríkið leggur til fyrir framleiðsluna á grundvelli annars vegar búvörusamninga og hins vegar búnaðarlagasamninga.