140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

skýrsla Norðmanna um EES-samstarfið.

[15:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hafa tekið þetta mikilvæga mál upp á Alþingi Íslendinga. Þessi skýrsla, eins og hv. þingmaður segir, er mikil að vöxtum, 900 blaðsíður, og það er handleggur að fara í gegnum hana. Ég ætla mér ekki þá dul að hafa gert það að öllu leyti. Ég hef þó kynnt mér meginniðurstöðurnar.

Ég verð að segja að ég er eiginlega sammála þeim meginniðurstöðum sem hv. þingmaður kemst að í sínu máli. Hún bendir á að fyrir Norðmenn sé niðurstaðan sú að um sé að ræða einhvern mikilvægasta viðskiptasamning sem gerður hefur verið og það sama gildi um Ísland. Þessi skýrsla grípur á þessum þætti en líka mörgum öðrum. Hv. þingmaður veltir því meðal annar fyrir sér hvernig samningurinn stenst okkar lýðræðiskröfur, hvernig hann stenst stjórnarskrána og fyrir okkur varðar það mjög miklu. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að í samningnum felst stöðugt, varanlegt og vaxandi fullveldisframsal. Við getum hins vegar ekki búið í sama varlega návíginu við okkar stjórnarskrá og Norðmenn. Ástæðan er sú að Norðmenn hafa ákvæði í sinni stjórnarskrá sem heimilar framsal á valdi. Við höfum það hins vegar alls ekki. Það verður að draga það fram líka að þó að Norðmenn hafi hugsanlega sinnt af bestu getu eftirliti með framkvæmd EES-samningsins kemur það eigi að síður fram í þessari skýrslu að norska þingið hefur átt ákaflega erfitt með að fylgjast með framkvæmd samningsins. Þannig segir bókstaflega í skýrslunni að síðan 1994–2011 hafi norska eftirlitsnefndin nánast ekki rannsakað eitt einasta mál.

Það sem Sejerstad kemst að og dregur saman nokkuð vel í grein sem hann birti fyrir skömmu í norsku dagblaði og segir að jafnvel nefndarmönnum í Evrópunefndinni norsku sem skýrsluna gerðu hafi ekki verið kunnugt, er að Evrópuvæðingin nær til mun fleiri sviða en menn gerðu ráð fyrir. Þetta dró hv. þingmaður alveg réttilega fram. Hann bendir á að Evrópusambandið nær til sérhvers ríkisborgara, sérhvers fyrirtækis, embættismanna og reyndar, til að undirstrika skoðun sína á þessu nefnir hann það sérstaklega, líka til norskra hænsna og grísa.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að menn gerðu sér grein fyrir þessu í upphafi. Hv. þingmaður kvartar undan því að þessu hafi ekki verið komið nægilega á framfæri. Ég sat á Alþingi Íslendinga á þessum tíma, um fátt annað var meira rifist á köflum í þeirri umræðu en einmitt þetta. Ýmsir vildu setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Einn af þeim sem ekki var þá kominn á þing, hæstv. innanríkisráðherra, krafðist þess og eftir á að hyggja kann vel að vera að það hefði verið rétt. Áhöldin sem voru uppi um þetta vörðuðu það hvort þarna væri verið að framselja of mikið vald. Eins og hv. þingmaður man leiddu þessar deilur til þess að sett var á laggir nefnd fjögurra mætra lögspekinga sem komust að þeirri niðurstöðu að vegna þess að Íslendingar höfðu möguleika á því að móta reglur framkvæmdastjórnar á þeim tíma mundi þetta standast stjórnarskrána. Þetta væri hins vegar á gráu svæði. Þá strax, árið 1994, og í þremur skýrslum síðan hafa lögspekingar bent á að með þróun samningsins geti verið að við séum að færast út af þessu gráa svæði. Hlutirnir eru gjörbreyttir síðan 1994. Evrópuþingið hefur til dæmis núna full völd til þess að gerbreyta þeim reglum og tillögum sem koma frá framkvæmdastjórninni. Það hafði engin slík völd 1994. Fjórir nýir samningar hafa komið til sögunnar. Mikil völd hafa verið færð til framkvæmdastjórnar og Evrópusambandsins varðandi dóms- og öryggismál. Ég minni bara á mjög umdeilda tilskipun sem ég færði hér inn í þingið sem flutti í reynd úr landi sektarvald í tilteknum öryggismálum og ég benti þinginu á að ég væri ekki viss um að þetta stæðist stjórnarskrána.

Þá fengum við álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar sem kannski grípur á kjarna málsins. Hann komst að þeirri niðurstöðu að þetta tiltekna mál stæðist stjórnarskrána ef það væri skoðað eitt og sér. En hann var ekki viss um ef skoðaðar væru allar breytingarnar sem gerðar hefðu verið að sú væri reyndin. Mín niðurstaða, meginniðurstaða — þær eru reyndar tvær — af þessari skýrslu er í fyrsta lagi að ég tel að vegna munarins á stjórnarskrá okkar og Norðmanna eigum við núna að beita okkur fyrir því að breyta stjórnarskránni þannig að við fáum Alþingi fullar heimildir til þess að framselja vald eins og við erum nánast að gera hér í hverri viku. Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að skýrslan sýni að við erum þegar búin að framselja mikið vald og við höfum lítil sem engin áhrif og þess vegna sé okkur betur komið innan (Forseti hringir.) Evrópusambandsins en í núverandi stöðu. Ég er sammála hv. þingmanni um það.