140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

skýrsla Norðmanna um EES-samstarfið.

[15:47]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Þessi norska skýrsla er um margt merkileg. Við skulum byrja á því að velta fyrir okkur aðstæðum í Noregi og Íslandi sem eru mjög svipaðar. Andstaðan við Evrópusambandsaðild er mjög mikil í Noregi, hún er yfir 80%, en 60–70% á Íslandi. Í þessari skýrslu er gagnrýnt mjög harkalega það mikla fullveldisafsal sem orðið hefur með EES-samningnum.

Hver verður niðurstaðan í Noregi af þessari skýrslu? Við Íslendingar skulum fylgjast með því, það er mjög mikið atriði. Það að draga ályktanir út frá þessari skýrslu til að undirbyggja eigin málstað eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur gert, að þjóðinni sé best borgið innan ESB, er ekki boðlegt. Nær væri að taka á því sem gagnrýnt er í skýrslunni sem er að fullveldisafsalið fer vaxandi. Það er verið að gagnrýna það í Noregi og það er ekki ósennilegt að niðurstaðan af umræðunum í Noregi verði einmitt sú að EES-samningurinn verði að einhverju leyti endurskoðaður og dregið úr fullveldisafsalinu.

Noregur er ekki að fara að ganga í ESB. Noregur held ég að sé ekki heldur að fara að segja upp EES-samningnum, en fullveldisafsalið er áhyggjuefni og það væri óskandi að við ættum utanríkisráðherra sem hefði núna samband við kollega sína í Noregi og óskaði eftir samstarfi í því að endurskoða EES-samninginn. Staðreyndin er sú að ef Norðmenn færu fram með þá kröfu að endurskoða EES-samninginn mundi Evrópusambandið hlusta. Vegna hvers? Vegna þess að Noregur er gríðarlega stórt og öflugt ríki og Evrópusambandið sjálft á mikla hagsmuni undir því að eiga góð viðskipti við Noreg. Það er ekki bara öfugt.

Þess vegna eigum við að taka umræðu um hvað muni gerast í Noregi. Hvernig á að koma í veg fyrir þetta fullveldisafsal? (Forseti hringir.) Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að gæta hagsmuna þjóðarinnar í þessu fremur en hagsmuna eigin flokks.