140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

skýrsla Norðmanna um EES-samstarfið.

[15:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Skýrslan sem hér um ræðir er mikil að vöxtum eins og komið hefur fram hjá fyrri ræðumönnum í dag. Ég þakka sérstaklega hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir hvað henni tókst þó að gefa gott yfirlit yfir það sem fram kemur í skýrslunni og stikla á helstu stóru atriðunum á þeim stutta tíma sem gafst.

Mér finnst við þurfa að hafa í huga að þessi skýrsla er ekki um það hvernig Norðmenn eiga að haga samstarfi sínu við Evrópusambandið eða vera í Evrópusamstarfinu í framtíðinni, hún er öll í baksýnisspeglinum. Það er bent á að þrátt fyrir að samstarfið við Evrópu verði sífellt nánara vegna samvinnunnar í EES hafi umræða um samstarf Noregs og Evrópu ekki aukist að sama marki, heldur kannski þvert á móti. Það virðist einhvern veginn eins og menn forðist að tala mikið um að samtvinnunin verði sífellt meiri.

Eins og sagt var í fréttum er niðurstaða skýrsluhöfunda sú að lýðræðishallinn sé mikill. Það þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart. Eins og komið hefur fram hefur það verið okkur ljóst að við erum ekki í herberginu þegar ákvarðanir eru teknar innan Evrópusambandsins um lög og reglur sem hafa áhrif, eins og kemur fram í skýrslunni í Noregi, sífellt meira og meira. Það gerist náttúrlega hér á landi. Menn segja að Norðmenn muni krefjast þess að EES-samningurinn verði endurskoðaður og að við eigum að fylgja í kjölfarið. Það kemur væntanlega engum á óvart að ég er ósammála því, ég tel að við séum alveg á réttri vegferð að sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu og ég trúi því að (Forseti hringir.) innan mjög langs tíma liggi fyrir samningur sem við getum sætt okkur við.