140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

skýrsla Norðmanna um EES-samstarfið.

[16:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Alveg er það dæmalaust að verið sé að ræða EES-samninginn og þá hugmynd að sé hann ekki nógu góður eigum við að ganga í Evrópusambandið. Evrópusinnar nota tækifærið til að tala fyrir því að við Íslendingar eigum að ganga í Evrópusambandið. Það eru eldgamlar fréttir að hér sé um eitthvert fullveldisafsal að ræða varðandi EES-samninginn. Alþingi logaði í deilum 1994 einmitt um hvort um fullveldisafsal væri að ræða eða ekki. Það eru ekki nýjar fréttir. Það eru heldur ekki nýjar fréttir að andstæðingar Evrópusambandsins fullyrði að t.d. Schengen-samningurinn sé afsal á fullveldi þó að Evrópusambandssinnar haldi hinu gagnstæða fram. Hér er um milliríkjasamning að ræða sem nær yfir fullveldið. Ég hef alltaf verið meðvituð um að um fullveldisafsal sé að ræða þó að því sé af og til stungið undir stól.

Árið 1994 þegar Alþingi samþykkti naumlega EES-samninginn var Alþingi ekki styrkt í kjölfarið, hvorki faglega né fjárhagslega, og þannig er það enn. Alþingi hefur hvorki verið styrkt faglega né fjárhagslega þrátt fyrir að þegar við gengum í það samstarf sem EES-samningurinn snýst um hafi bæst við alveg gríðarleg vinna fyrir alþingismenn við að taka við reglugerðum og tilskipunum frá Evrópusambandinu. Ég hef orðið vitni að því hvernig þessi mál eru afgreidd í gegnum þingið. Á nefndasviði er sagt: Æ, þetta er EES-tilskipun, við skulum láta hana rúlla í gegn. Því hef ég mótmælt. Ég hef verið talsmaður þess að styrkja þingið, að vinnan sé betur unnin og undirbyggð þannig að við byggjum löggjöf okkar á almennilegum reglugerðum og tilskipunum. Ég minni jafnframt á, frú forseti, að við höfum neitunarvald gagnvart (Forseti hringir.) EES sem íslenskir þingmenn hafa hingað til ekki sýnt kjark til að nota, ólíkt norskum þingmönnum í umræðu um pósttilskipunina þar í landi.