140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

snjómokstur.

444. mál
[16:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér er til efs að nokkurt sveitarfélag í landinu búi við jafnhraklega vetrarþjónustu á vegum og Árneshreppur á Ströndum. Þar er staðan sú að þar er í gildi svokölluð G-regla varðandi snjómokstur, sem þýðir það að Vegagerðin hættir að ryðja veginn 6. janúar ár hvert, (Forseti hringir.) og þannig er það fram til 20. mars.

(Forseti (RR): Einn fund í salnum, takk.)

Það er auðvitað óviðunandi. Það er ekki mönnum bjóðandi. Því verður að breyta. Samgönguaðstæður í Árneshreppi eru, eins og flestir vita, mjög bágbornar. Vegurinn norður krefst mikilla úrbóta, það vitum við. Þegar þannig háttar til yfir háveturinn að ekki er heimilt að moka hafa íbúarnir og aðrir sem þangað vilja fara eingöngu möguleika á að ferðast til og frá sveitarfélaginu með flugi. Það er hins vegar ferðamáti sem ekki hentar öllum, auk þess sem allir vita að það er mjög dýrt. Í um þrjá mánuði á ári má segja að vetrarsamgöngur séu engar á landvegi norður í Árneshrepp. Því verður að breyta.

Því er þá svarað þannig að það sé ekki hægt vegna þess að vegakerfið bjóði í raun ekki upp á eðlilega vetrarþjónustu, vegirnir séu ekki nægilega uppbyggðir. Við vitum um erfiða kafla, t.d. yfir Veiðileysuhálsinn, líka um Kjörvogshlíðina. Þegar við skoðum svo samgönguáætlanir þær sem hæstv. innanríkisráðherra mælti fyrir fyrir stuttu síðan, sjáum við að þar er gert ráð fyrir því að eingöngu verði farið í vegaframkvæmdir norður í Árneshreppi á síðasta vegáætlunartímabili, 2019–2022.

Ég ætla að fullyrða eitt: Ef það er niðurstaðan og að engu verði breytt varðandi snjómoksturinn norður í Árneshrepp, verður það stórháskalegt fyrir byggðina í Árneshreppi. Ekkert okkar vill að sú aðstaða komi upp að slík hætta skapist fyrir byggðina norður í Árneshreppi. Hún er veik eins og við vitum, en hins vegar hefur margoft komið fram mikill vilji meðal þingmanna til að styðja við þessa byggð. (Gripið fram í: Heyr, Heyr.) Það gengur hins vegar ekki ef við ætlum á sama tíma að þrjóskast við og halda í gildi snjómokstursreglum sem eru eins og ég rakti. Það er enginn að tala um mokstur þegar veðurfarslegar aðstæður leyfa hann ekki. Verið er að tala um að hafa hér eðlilegar reglur eins og flest önnur sveitarfélög í landinu búa við þar sem mokað er með einhverjum reglubundnum hætti, líka yfir vetrarmánuðina.

Þær fyrirspurnir sem ég hef lagt fyrir hæstv. innanríkisráðherra lúta þessu: Í fyrsta lagi, hvaða sveitarfélög búa núna við svokallaða G-reglu um snjómokstur sem felur í sér að ekki er mokað yfir vetrarmánuðina? Í annan stað: Er ætlunin að endurskoða regluna hvað varðar snjómokstur í Árneshreppi á Ströndum?