140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

snjómokstur.

444. mál
[16:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þær leiðir sem falla undir svokallaða G-reglu eru Dynjandisheiði, Hrafnseyrarheiði, Strandavegur að Gjögri, Hellisheiði eystri og Jökulsárhlíð, Mjóafjarðarvegur, Skriðdalur, Öxi og Breiðdalsheiði.

Hv. þingmaður spyr einnig hvor ætlunin sé að endurskoða regluna hvað varðar snjómokstur í Árneshreppi á Ströndum.

Því er til að svara að ekki hefur verið tekin ákvörðun um að endurskoða þá reglu varðandi snjómokstur í Árneshreppi. Þarna er um að ræða um 90 km langa leið sem liggur meðal annars um snjóþungan óuppbyggðan fjallveg, Veiðileysuháls, svo og varasamt snjóflóðasvæði, Kjörvogshlíð, sem hv. þingmaður vék að í tali sínu áðan.

Kostnaður við vetrarþjónustu á árinu 2011 í Árneshreppi var eftirfarandi samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar:

Drangsnes – Kjörvogur, 6,3 milljónir, Gjögur – Norðurfjörður, 2,1 milljón. Helmingakostnaður 0,4 millj. kr., eða samtals 8,8 millj. kr.

Rétt er að benda á að takmarkað fé til þjónustu vega hefur leitt til þess að ekki er einu sinni unnt að veita sumum sveitarfélögum eða hlutum sveitarfélaga þjónustu samkvæmt G-reglu, þau fá enga þjónustu nema helmingamokstur þar sem viðkomandi sveitarfélag ber helming kostnaðar. Eins og fram kom í sundurgreiningu Vegagerðarinnar er í því sambandi verið að tala um 0,4 milljónir hvað Árneshrepp varðar.

Hvað þetta snertir má telja hér Mýrar, Fellsströnd, Skarðsströnd, Heggstaðanes, Vatnsdal, Víðidal, Vatnsnes, Svartárdal, Skaga, Melrakkasléttu, Langanes, Jökuldal og fleiri byggðarlög. Það er því víða sem menn eiga í erfiðleikum.

Síðan er því við að bæta að í því árferði sem við búum við núna, óvenju snjóþungan vetur um land allt, er álagið á Vegagerðina og þar með snjómoksturinn nú miklum mun meiri verið hefur á undangengnum snjóléttum vetrum. Það er staðreynd. Ég er að láta taka saman fyrir mig hvert álagið er á pyngju Vegagerðarinnar hvað þetta snertir. Að sjálfsögðu vildum við verða við þeim óskum sem fram hafa komið, úr Árneshreppi en einnig þeim byggðum sem ég taldi upp áðan og telja sig ekki búa við viðunandi stöðu hvað þetta snertir. En Vegagerðin reynir að gera sitt besta þótt hún búi við þrönga fjárhag.