140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

þátttaka Íslendinga á ólympíuleikum fatlaðra.

297. mál
[16:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir þessa fyrirspurn. Ég ætla að byrja á því að ræða fjármögnunina, sem hv. þingmaður lauk máli sínu á að ræða sérstaklega, en það er rétt að framlag til Íþróttasambands fatlaðra er 21,5 millj. kr. fyrir árið 2012.

Eins og hv. þingmaður benti réttilega á kom þar ekki inn sérstakt framlag vegna Ólympíuleika, en ég hef hins vegar ákveðið að veita 3 millj. kr. af svokölluðum safnliðum mennta- og menningarmálaráðuneytis í þetta verkefni. Ég átti fund með forsvarsmönnum Íþróttasambands fatlaðra á dögunum, þar sem þeir gerðu mér grein fyrir sinni stöðu, þannig að sambandið fær þá 3 millj. kr. líkt og var á árinu 2009.

Eins og hv. þingmaður nefndi er undirbúningur vegna Ólympíumótsins fyrst og fremst fjármagnaður af rekstrarfé Íþróttasambands fatlaðra. Sá undirbúningur lýtur að umgjörð fyrir íþróttafólkið í aðdraganda leikanna og kostnaði við sjálfa leikana. Í niðurskurði undanfarinna ára hefur rekstrarframlagið verið skorið niður en framlag til Íþróttasambands fatlaðra var þó skorið minna niður en aðrir liðir. Hins vegar er ekki lengur sérliður á fjárlögum sem er ætlaður í þetta ólympíska verkefni og því tel ég mjög mikilvægt verkefni fyrir undirbúning fjárlaga næsta árs að þetta verði skoðað samhliða.

Af því að við hv. þingmaður ræddum hér fyrir tveimur vikum almennt um Ólympíuleika og undirbúning tel ég mjög mikilvægt að við ræðum hvernig við viljum haga þeim undirbúningi og hvort ekki sé æskilegt að um verði að ræða varanlega sérmerkta liði á fjárlögum því þessi liður var í raun alfarið skorinn niður í niðurskurði efnahagskreppunnar. Eins og kunnugt er einskorðast kostnaður við undirbúning ekki við ólympíuárið sjálft. Ég nefni sem dæmi að í frjálsum íþróttum og borðtennis þarf íþróttafólk að sækja mót erlendis til að vinna sér þátttökurétt þar sem mót hérlendis eru ekki nægilega sterk til að gefa stig á heimslistum í þeim greinum.

Sérsamböndin geta svo sótt um styrk í afrekssjóð vegna verkefna og undirbúnings fyrir sitt íþróttafólk. Fjórir íþróttamenn úr röðum fatlaðra eru á svokölluðum C-styrk afreksmannasjóðs en veittir eru A-, B- og C-styrkir vegna verkefna einstakra íþróttamanna. Þau verkefni eru fjármögnuð, eins og hv. þingmaður þekkir, með framlagi ríkisins og ÍSÍ til afrekssjóðs.

Kostnaður við þátttöku og undirbúnings hvers fatlaðs íþróttamanns er oft mun meiri en hjá ófötluðum. Sá kostnaður getur legið í því að aðstoðarfólk er fleira en að jafnaði þarf einn og jafnvel fleiri aðstoðarmenn fyrir hvern íþróttamann allt eftir því hvernig fötlun er um að ræða. Ég tel mikilvægt að við horfum á þetta líka þá í samhengi við afrekssjóðinn.

Sérsamböndin eru 28 hér og að auki eru átta íþróttanefndir sem hver um sig veitir einni íþróttagrein forustu og ég held að það væri mjög gott að við ræddum þetta heildstætt. Við hv. þingmaður gátum því miður ekki lokið fyrirspurnum okkar á dögunum þegar við vorum að fara yfir þessi mál því að það skiptir máli að við ræðum heildstætt hvernig fjármagna megi þátttöku í Ólympíuleikunum til framtíðar. Á að veita aukið fjármagn til afrekssjóðsins og sérsambandanna, Íþróttasambands fatlaðra þá í þessu tilviki, eða eigum við að hafa þessa sérmerktu liði sem tengjast beinlínis hinum ólympísku verkefnum? Ég held að það sé úrlausnarefni hvernig við viljum sjá þetta.

Ég vil síðan nefna að það er Íþróttasamband fatlaðra — af því að hv. þingmaður spyr líka almennt um undirbúning og þátttöku Íslendinga — sem sér um undirbúning og þátttöku á Ólympíumóti fatlaðra. Það hefur þá sérstöðu, getum við sagt, að hýsa allar íþróttagreinar fatlaðra sem stundaðar eru innan íþróttahreyfingarinnar og því má segja að það virki eins og Íþrótta- og Ólympíusambandið fyrir ófatlaða. Það standa til þess væntingar að fimm til sjö keppendur nái að vinna sér þátttökurétt á Ólympíumótinu en lokafrestur er 20. maí á þessu ári. Þær greinar sem Íslendingar eiga möguleika á þátttöku í eru sund, frjálsar íþróttir og borðtennis en tveir íþróttamenn hafa nú þegar náð lágmörkum í sundi. Alls munu 4.200 íþróttamenn frá heiminum öllum komast inn á Ólympíumótið, 1.100 keppendur í frjálsum íþróttum, 276 í borðtennis og 600 í sundi. Einmitt út af því að þátttökufjöldinn á leikunum er föst tala er ekki öruggt að allir sem náð hafa tilskildu lágmarki komist á leikana, til að mynda hafa 700 sundmenn á heimsvísu náð lágmarki og því ná þeir 600 sem eru með besta tímann þátttökuréttinum þó að 700 hafi uppfyllt lágmarkið.

Mig langar að lokum að nefna, af því að tími minn flýgur hér, að á síðasta vetrarólympíumóti fatlaðra í Vancouver í hittiðfyrra tók í fyrsta sinn þátt fatlaður íþróttamaður frá Íslandi og ég veit að væntingar eru um að við munum taka þátt í vetrarólympíumóti fatlaðra í Rússlandi árið 2014.