140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

þátttaka Íslendinga á ólympíuleikum fatlaðra.

297. mál
[16:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir góða fyrirspurn og um leið vil ég líka þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og í raun þann skilning sem hún sýnir ótrúlega merkilegu starfi hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Hún dró réttilega fram þá möguleika sem við eigum á því sviði, meðal annars til að komast inn á Ólympíuleikana, þar nefndi hún sund, frjálsar íþróttir og borðtennis. Það verður að segjast eins og er að á þessu sviði verðum við líka að gera ráð fyrir því að við munum sækja fram. Við höfum átt í gegnum tíðina mikið afreksfólk á þessu sviði en við sjáum það líka að betri aðstaða, bætt aðstaða víðs vegar um landið, til að mynda innilaug Laugardalslaugarinnar, er til mikilla bóta, ekki síst fyrir fatlaða sundmenn og það sama má segja um laugina heima í Hafnarfirði, Ásvallalaug sem hefur bætt aðstöðu fatlaðra til muna.

Við megum og við eigum að gera ráð fyrir því að við munum sækja fram á þessu sviði. Þess vegna fagna ég (Forseti hringir.) þeim skilningi sem hæstv. ráðherra sýnir þessum málaflokki og að hún ætli að taka þetta jafnföstum tökum og hún lýsti yfir fyrr í dag varðandi (Forseti hringir.) afrekssjóð íþróttafólks og þá sem ætla að fara á Ólympíuleikana í London í sumar.