140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

íþróttaiðkun fatlaðra.

298. mál
[16:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að vel sé við hæfi að halda áfram umræðum um íþróttir fatlaðra, nú ekki í tengslum við Ólympíuleikana sem eru fram undan á þessu ári heldur um það hvernig staðið verður að íþróttum fatlaðra og aðkomu ríkisins til að við getum gert þetta eins vel úr garði og við viljum.

Líkt og í öðrum íþróttagreinum er afreksfólk fatlaðra öðrum fötluðum fyrirmyndir og eru þeim án nokkurs vafa hvatning til aukinnar hreyfingar og heilbrigðs lífernis. Samfélagslega hefur aukin hreyfing fatlaðra í för með sér lægri lyfjakostnað auk þess sem líkamlegt atgervi þeirra og sjálfstraust eykst. Af því að við ræddum um Ólympíuleikana þá hefur Íþróttasamband fatlaðra eytt háum fjárhæðum til að tryggja að íþróttamenn þess í hinum ýmsu íþróttagreinum nái tilskildum lágmörkum til að öðlast þátttökurétt á leikunum. Vegna þessa og lækkandi fjárframlaga frá ríki og fyrirtækjum sem og vegna utanaðkomandi aðstæðna hefur halli á rekstri sambandsins 2010 og 2011 numið 6–7 millj. kr. hvort ár.

Í þessu sambandi verður að líta til þess að uppbygging og hlutverk Íþróttasambands fatlaðra hefur ákveðna sérstöðu með tilliti til sérsambanda innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Umfang starfsins líkist frekar heildarsamtökum margra íþróttagreina en sérsamböndum sem sjá aðeins um eina ákveðna íþróttagrein enda er oft talað um Íþróttasamband fatlaðra sem litla ÍSÍ. Innan Íþróttasambandsins eru stundaðar nánast allar greinar íþrótta sem stundaðar eru hér á landi auk sérgreina, svo sem bogfimi, boccia og hokký.

Þess vegna spyr ég hæstv. menntamálaráðherra: Er hún ekki sammála mér um að vel þurfi að standa að þessum málum til framtíðar? Við þurfum að fylgja eftir þessu fjárframlagi vegna Ólympíuleikana, sem ég fagna sérstaklega. Við þurfum ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að staðið verði vel að þessum málum. Við sjáum að ríkið verður að koma þar að með einum eða öðrum hætti. Það er í sjálfu sér sárt að líta til þess að þessi liður skuli hafa orðið fyrir svo miklum niðurskurði þegar hægt væri að benda á aðra liði sem maður hefði ætlað að skera hefði mátt niður í staðinn.