140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

íþróttaiðkun fatlaðra.

298. mál
[16:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Af því þingmaðurinn spyr um hvernig megi fjölga tækifærum fatlaðra til að stunda íþróttir og efla íþróttaiðkun fatlaðra vil ég fyrst segja að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er auðvitað æðsti aðili hinnar frjálsu íþróttastarfsemi í landinu. Sérsamböndin eru síðan regnhlífasambönd þeirra íþróttagreina sem eru aðilar að ÍSÍ og sjá um skipulagningu móta í öllum greinum í samvinnu við íþróttafélögin og héraðssambönd hvers svæðis. Íþróttafélögin bjóða síðan upp á íþróttastarf í sveitarfélögum og sveitarfélög styðja flest íþróttastarfið í nærumhverfi sínu þannig að flestir geti stundað íþróttir við sitt hæfi. Þetta vitum við og þannig er íþróttastarfið skipulagt á landsvísu.

Eins og hv. þingmaður segir réttilega hefur Íþróttasamband fatlaðra hingað til haft umsjón með fleiri greinum en sérsambönd almennt vegna sérstöðu sinnar. Sambandið hefur hins vegar líkt og önnur sérsambönd samstarf um mótahald við þau íþróttafélög sem hafa aðild að sambandinu og íþróttafélög sem bjóða upp á íþróttir fatlaðra eru líka í samstarfi við héraðssamband sitt eins og önnur íþróttafélög. Það sama gildir um samstarf við sveitarfélögin í nærumhverfi hvers íþróttafélags. Þetta er því í sjálfu sér byggt upp á sama hátt og hin hefðbundna íþróttastarfsemi undir hatti hinna frjálsu félagasamtaka. Það ræðst kannski að sumu leyti talsvert af áhuga á hverjum tíma hvaða greinar eru mest stundaðar og annað slíkt innan þeirra.

Eins og hv. þingmaður nefndi er aðkoma ríkisins fyrst og fremst stuðningur við Íþróttasamband fatlaðra og við fórum yfir þær tölur, 21,5 millj. kr. á þessum fjárlögum. Framlagið hefur auðvitað verið skorið niður eins og aðrir liðir en ég vil þó minna á að einmitt vegna þessarar sérstöðu hefur það verið skorið minna en flestir aðrir liðir. Heildarniðurskurður hefur verið 3,9 millj. kr. frá árinu 2009 þannig að þar höfum við reynt að ganga varlega fram. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni að við þurfum að horfa til lengri tíma. Við ræðum hér oft um afreksstarf og um þátttöku á Ólympíuleikum. Hún verður að sjálfsögðu ekki að veruleika nema undirstaðan sé í lagi, að börn og ungmenni eigi aðgang að íþróttastarfi og að þau geti sinnt íþróttum sínum í heimabyggð.

Eins og ég lýsi því er frjálsa félagastarfið ekki beinlínis skipulagt af stjórnvöldum. Áhuginn kemur í gegnum grasrótarstarfið, þarfnast samvinnu við aðila í nærumhverfinu með aðstöðu og oftast kemur það til kasta héraðssambanda og sveitarfélaga þegar áhugi á nýjum greinum vaknar í viðkomandi héraði, af því að hv. þingmaður nefndi fjölbreytni greina.

Í nýrri stefnumótun í íþróttamálum sem ráðuneytið hefur gefið út eru nokkur markmið sem snúa að þessu, að efla fræðslu, útbreiðslu og framboð íþróttagreina til að efla fjölbreytni. Umræða um það hvernig fari best á því að styrkja stoðir þessa kerfis þannig að framboð aukist og þar af leiðandi að tækifærum til íþróttaiðkunar fjölgi þarf hins vegar að fara fram á milli ráðuneytis, íþróttahreyfingarinnar og sveitarfélaga. Og af því að hv. þingmaður nefndi framlög ríkisins, sem við ræddum fyrir tveimur vikum hvernig þau væru samanborið við annars staðar á Norðurlöndum, kemur í ljós að sveitarfélögin hér á landi leggja að sjálfsögðu talsvert fram til íþróttastarfsemi, bæði til íþróttafélaga í héraði og til héraðssambanda en líka með uppbyggingu á mannvirkjum. Þetta held ég að sé mikilvægt að við skoðum og greinum nánar.

Besta leiðin fyrir ríkið og stjórnvöld er að styðja við Íþróttasambandið sem er í raun og veru yfirhreyfingin þannig að hún geti síðan stutt íþróttafélög fatlaðra sem sinna íþróttastarfi í nærumhverfi sínu. Þannig held ég að markmiðum um fjölbreytni og fleiri tækifæri til íþróttaiðkana verði best náð.