140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

fjar- og dreifnám.

432. mál
[16:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir svör hæstv. menntamálaráðherra og einnig fyrir jákvæða athugasemd frá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni.

Ég mundi vilja fá að bregðast við því sem kom fram í máli ráðherrans um að starfshópur hefði unnið að mótun ákveðinnar stefnu varðandi fjar- og dreifnám. Ég hvet ráðherrann til að koma með þingsályktunartillögu inn í þingið, þess vegna um fjar- og dreifnám á bæði framhaldsskólastigi og háskólastigi, þar sem Alþingi gæti tekið afstöðu til opinberrar menntastefnu og ályktað sérstaklega um málið.

Ég tel að það sé mjög brýnt að við höldum vel utan um þessa tegund af námi. Það sem hefur verið að gerast og er mjög áhugavert að sjá í kreppu þegar minni fjármunir hafa verið innan skólanna og kom fram á fundi með menntavísindasviði Háskóla Íslands er að þróunin hefur verið sú að við það að þurfa að draga saman raunar allt nám er ekki lengur boðið upp á staðbundið nám þar heldur er allt nám meira eða minna fjar- og dreifnám. Menntavísindasviðið hefur verið geysilega framarlega í þróun á fjar- og dreifnámi. Þaðan fara menn síðan inn í grunnskólana og svo framhaldsskólana þar sem þeir koma þessari þekkingu á framfæri.

Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að við skoðum í tengslum við opinbera menntastefnu um fjar- og dreifnám hvernig við nýtum fjármuni til að hvetja skóla til samstarfs. Ef framhaldsskólar sjá sér ekki hag í því, eins og var tekið hér fram, að þrír stærstu skólarnir hefðu ekki haft áhuga á slíku samstarfi, verðum við einfaldlega að búa til hvata sem gerir það að verkum að þeir verða tilbúnir að taka þátt. Það er það mikilvægt.