140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

fjar- og dreifnám.

432. mál
[16:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda að skapa þarf hvata í kerfinu sem stuðlar að samstarfi. Nýting á opinberum fjármunum okkar yrði auðvitað langbest ef skólarnir störfuðu saman og kæmu sér saman um hlutina. Ég tek undir það sjónarmið.

Ég lít svo á að hún hafi sett fram áskorun um að mótuð verði opinber stefna um fjar- og dreifnám. Ég mun íhuga það mjög vandlega. Ég held að æskilegt geti verið að gera það í góðu samráði við hv. allsherjar- og menntamálanefnd, þar sem ég þykist vita að hv. þingmaður sitji (Gripið fram í.) — sitji ei meir, sem sagt. Þetta er mjög áhugavert því að það má segja að þetta sé stefna um kennsluhætti, inntakið viljum við að sjálfsögðu hafa líkt á milli staðnáms og fjar- og dreifnáms en þetta snýr að kennsluháttum. Í landi sem er byggt eins og okkar er mikil þörf á því að þessir hlutir geti virkað með góðum hætti.