140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

mælingar á dilkakjöti og beitarrannsóknir í Skutulsfirði.

447. mál
[17:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Í fyrra kom upp hið svokallaða díoxínmál í Skutulsfirði. Í sjálfu sér þarf ekki að rekja það mál sérstaklega. Það fannst díoxínmengun í mjólk frá bænum Engidal í Skutulsfirði í desember 2010 sem var rakin til sorpbrennslustöðvarinnar Funa. Í framhaldi af því var gripið til margs konar aðgerða eins og kunnugt er. Meðal annars var ákveðið að fram færu mælingar á kjötinu sem framleitt var af bændum í Skutulsfirði og þær skoðaðar. Enn fremur var tekin um það ákvörðun af Matvælastofnun að skikka bóndann í Engidal til að slátra fé sínu. Þetta gerðist án þess að fyrir lægju þessar mælingar. Núna eru málin hins vegar að skýrast, eftir því sem mér skilst liggja fyrir niðurstöður um mælingar á dilkakjötinu sem framleitt var af bændunum í Skutulsfirði.

Af því tilefni hef ég lagt fram á Alþingi fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hverjar hafi verið niðurstöðurnar af mælingunum á dilkakjötinu sem framleitt var af bændum í Skutulsfirði. Ég spyr sérstaklega hvort þær hafi verið yfir viðmiðunarmörkum.

Enn fremur spyr ég hvort þessar niðurstöður hafi gefið tilefni til þess að slátra fénu úr Engidal. Það má kannski segja að það sé nokkuð seint í rassinn gripið því að bóndanum var gert, eins og ég sagði, að fara með fé sitt í sláturhús. Nú er bóndinn í mikilli óvissu. Í viðtali við Steingrím Jónsson, bónda í Efri-Engidal í Skutulsfirði, í síðasta Bændablaði fjallar hann um þetta og segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„MAST“ — þ.e. Matvælastofnun — „opnar á beit búfjár og öflun fóðurs en bréfinu til mín fylgdu engin söluleyfi. Nú eru mín mál bara í höndum lögfræðings.“

Þetta finnst mér ekki góð staða. Bóndanum er gert að slátra fénu sínu. Honum er ekki ljóst hvert framhaldið verður. Eins og allir vita er ekki auðvelt að hefja uppbyggingu búskapar að nýju í ljósi þessarar óvissu og í ljósi þess að af þessu hefur þegar hlotist fjárhagslegt tjón.

Ég hef af þessum ástæðum enn fremur spurt hæstv. ráðherra hvort bændum á svæðinu verði greiddar bætur vegna þess að þeim var gert að slátra fénu. Loks spyr ég um niðurstöður beitarrannsókna sem framkvæmdar voru í fyrrasumar á þessum slóðum.