140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

mælingar á dilkakjöti og beitarrannsóknir í Skutulsfirði.

447. mál
[17:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég þakka jafnframt fyrir þessa fyrirspurn um þarft málefni sem nauðsynlegt er að ræða, bæði hvernig það varð til og síðan hvernig á því var haldið. Ég undrast orð hæstv. ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála um bótaskyldu ríkisvaldsins og langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að þær aðgerðir sem Matvælastofnun greip til hafi kannski verið í óhófi, hafi gengið of langt. Það er vísað til þess að sýni hafi legið um og/eða yfir mörkum.

Þá spyr ég ráðherrann hvort þar sé tekið tillit til vikmarka sem ég held að sé ekki og hvort þær aðgerðir sem gripið var til með tilkynningaskyldu og síðan banni við búfjárrækt á þessu svæði hafi ekki verið gerðar á afar veikum grunni svo ekki sé meira sagt.