140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

þróun þyngdar hjá börnum og unglingum.

291. mál
[17:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör hans. Ég veit að hann náði kannski ekki alveg að klára, en það sem upp á vantaði kemur væntanlega á eftir.

Ég vil taka sérstaklega fram að þessi fyrirspurn mín er ekki sett fram undir neikvæðum formerkjum. Hún er frekar sett fram til að við breytum því viðhorfi sem hefur verið hér gagnvart lýðheilsumálum, að við leggjum meiri áherslu á heilbrigt líferni. Ég hef lagt fram fyrirspurnir sem tengjast íþróttum, afreksíþróttum og íþróttum fatlaðra í tengslum við Ólympíuleikana á þessu ári. Eins og kemur fram í ágætri grein Sigrúnar Daníelsdóttur sem ég vísaði í áðan eru óheilbrigðar lífsvenjur vandamálið en ekki kannski offitan sem slík.

Auðvitað eru margar og flóknar ástæður fyrir því af hverju þyngd barna hefur þróast með þessum hætti. Við tölum um breytta lífshætti, mataræði og hreyfing, aukið sjónvarpsáhorf, tölvunotkun og bílaeign — allt þetta hefur áhrif á hreyfingu. Ýmislegt hegðunarmynstur sem börn og aðrir temja sér getur haft áhrif á holdafar og næsta fyrirspurn mín snýr að svokölluðum sykurvenjum eða neyslu á sykri hjá Íslendingum. (Forseti hringir.) Það er einfaldlega þannig að þessum vörum er gjarnan beint að börnum og þær eru ekkert endilega hollustuvörur.

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. (Forseti hringir.) velferðarráðherra fyrir svör hans.