140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

sykurneysla barna og unglinga.

292. mál
[17:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka bæði hæstv. velferðarráðherra og hv. þingmanni fyrir svörin og innleggið. Ég ítreka að umræðan verður að taka á jákvæðum nótum og með jákvæðum formerkjum. Það kom mjög skýrt fram bæði í máli mínu áðan og hæstv. velferðarráðherra að svo ætti að vera.

Varðandi sykurneysluna er alveg sláandi að Íslendingar innbyrða 6.000 tonn af sælgæti á ári. Af því að ég nefndi að upplýsingar um innflytjendur sykurs lægju ekki á borðinu er það ekki sagt til að vekja tortryggni í garð þeirra sérstaklega. Það vakti hins vegar furðu mína að þessar upplýsingar liggja ekki fyrir. Ég held að ef við ætlum okkur að ná einhverjum árangri, og ég held að við hljótum að vera sammála um það, þurfum við Íslendingar að minnka sykurneysluna. Við sjáum hvert sumar aðrar þjóðir hafa stefnt og við viljum alls ekki fara í þau spor. Við erum stöndum öðrum Norðurlandaþjóðum langt að baki. Það er nokkuð sem við viljum ekki láta spyrjast um okkur.

Ég vil líka benda á umræðu og þær aðgerðir sem lagt var af stað með innan Alþingis varðandi transfitusýru. Við höfum náð gríðarlega góðum árangri í þeim efnum, matvælaframleiðendur fengu góðan aðlögunartíma til þess að bregðast við. Frá því á síðasta ári hefur transfitusýrumagn verið minnkað stórlega í matvælum hér innan lands. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir (Forseti hringir.) var forgöngumaður í þeim efnum.

Þetta er gríðarlega mikilvægt mál. Ég veit að hæstv. velferðarráðherra mun fylgjast vel með. (Forseti hringir.) Þetta er umræða sem við verðum að taka aftur upp á Alþingi.