140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

tannskemmdir hjá börnum og unglingum.

293. mál
[17:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að ég kallaði hæstv. velferðarráðherra hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er nú sami hluturinn og ég veit að það kemur ekki að sök en rétt skal vera rétt.

Ég þakka þau svör sem ég fékk frá hæstv. ráðherra og einnig það innlegg sem kom frá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni. Það þarf að gera mikinn skurk í þessum málaflokki og mér þótti vænt um að heyra að hæstv. velferðarráðherra gengst við því að þarna sé kannski eitthvað sem við þyrftum hvað helst að laga í okkar annars ágæta heilbrigðiskerfi. Það þarf ekki bara að taka upp samningana og klára þá og leysa þær deilur sem hafa verið milli lækna og Tryggingastofnunar í mörg ár, það þarf líka að efla upplýsingamiðlunina. Við þurfum að fara í átak, hvorki meira né minna, sem gerir það að verkum að við stöndum framar öðrum Norðurlandaþjóðum en ekki að baki eins og hvað þetta varðar.

Ég ræddi um ábyrgð foreldra, hún er mikil, en þetta er ekki síður ábyrgð samfélagsins alls sem þarf að taka á þessu, stjórnendur íþróttamannvirkja, skóla, kvikmyndahúsa, allir eru hvattir til að leggja sitt af mörkum.

Ég ítreka þakkir fyrir þessa umræðu. Hún er mikilvæg. Við framsóknarmenn munum halda henni á lofti og þrýsta á að hæstv. velferðarráðherra komi (Forseti hringir.) með stefnu sem ég veit að hann mun beita sér fyrir innan ríkisstjórnarinnar.