140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

tannskemmdir hjá börnum og unglingum.

293. mál
[17:59]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka aftur fyrir þessa umræðu og þá hvatningu sem ég fæ til að unnið verði að stefnu og markmiðum um tannheilsu. Það er full ástæða til að taka undir það. Ég held að það sé mikilvægt eins og ég kom að áðan að kanna ástandið, en við þurfum líka að marka stefnu í gegnum heilbrigðisáætlun sem er núna í undirbúningi en fyrst og fremst þurfum við að reyna að ná einhverjum takti. Spurningin er: Ætlum við að hafa tannlækningar sem einkarekstur í landinu til langs tíma eða verðum við að taka upp skólatannlækningar? Ég hef sjálfur horft til þess að ekki þyrfti endilega að breyta til baka yfir í það að vera með skólatannlækningar, heldur þyrfti miklu betra eftirlit með því hverjir fara og hvernig fylgst er með hverjum einstaklingi. En þá þurfa tannlæknar, heilbrigðisyfirvöld og samfélagið í heild að ná sáttum um það með hvaða hætti slíkt verður gert.

Ég ætla svo sem ekki að blanda mér meira inn í þá umræðu og vandamálin sem hafa verið varðandi það að við höfum gengið í gegnum kreppu og ekki verið með það sem forgangsmál að auka útgjöldin. Menn hafa gert kröfu um að gjaldskráin sem borgað er eftir og nú dugir fyrir u.þ.b. 45% þurfi að hækka um allt að 115%, segja tannlæknar. Þeim hefur verið boðið að hún verði hækkuð upp um 75% með ákveðnum reikningsaðferðum til að reyna að finna út sanngjarna hækkun á þeirri gjaldskrá. Það mundi duga til að ná 75% greiðsluþátttöku fyrir börn frá 0–18 ára.

Þessari vinnu er alls ekki lokið. Verkefnið er stórt og við skulum vona að við finnum réttar leiðir og ég þakka fyrir allt liðsinni sem hægt er að fá í þeirri baráttu.