140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

fíkniefnaneysla ungmenna og forvarnir.

295. mál
[18:24]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu í heild sem við endum á fíkniefna- og áfengisneyslu. Ég sagði að árangurinn hefði verið umtalsverður með sameiginlegu átaki. Þótt ég hafi sagt það er ég sammála hv. málshefjanda og þingmanni um að við megum hvergi slaka á klónni. Við þurfum að halda þessari vinnu áfram.

Við verðum líka að vera vakandi fyrir því að á sama tíma og ástandið batnar kannski í heildina á ákveðinn jaðarhópur í vaxandi erfiðleikum. Við þurfum að reyna með öllum tiltækum ráðum að forða hverjum einasta einstaklingi frá því að lenda í ógöngum vegna fíkniefnaneyslu eða ofneyslu áfengis. Það er ærið verkefni sem allir verða að hjálpast að við að leysa.

Eitt af því sem hefur verið rætt í velferðarráðuneyti og ég hef verið að vinna að er að láta hefja undirbúning og vinnu við heildstæða stefnumótun í ávana- og fíkniefnamálum um tæki til forvarna og meðferðar og fleira sem fjölmargir aðilar þurfa að koma að. Þetta átaksverkefni verður ekki gert á nokkrum dögum eða vikum heldur þarf það sífellt að vera í gangi. Leiða þarf saman alla þá aðila sem hafa unnið gríðarlega öflugt starf, þ.e. félagasamtök, íþróttahreyfingin, við getum nefnt þær stofnanir sem hafa vinnu af þessu og sinna þessu verkefni, til að koma að verkefninu og auðvitað þarf að halda utan um söfnun upplýsinga. Þar gegna skólar, eins og Háskólinn á Akureyri, og ýmis fyrirtæki sem ég nefndi að ynnu að þessum málum mjög miklu hlutverki.

Verkefnið er ærið. Ég held að við eigum að nálgast það með jákvæðum hætti en við verðum um leið að vita að verkefnið er stöðugt og sífellt.