140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

lækkun fasteignaskulda hjá Íbúðalánasjóði.

338. mál
[18:37]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Maður getur sett þetta fram með ólíkum hætti. Hv. þingmaður segir að menn hafi misst af þessum peningum en það verður að taka fram að tveir þriðju íbúðalána eru hjá Íbúðalánasjóði og þess vegna fara miklu hærri upphæðir einmitt í gegnum Íbúðalánasjóð, auk þess sem bankarnir sem hafa boðið ákveðin kjör hafa líka verið að hreinsa til í lánasöfnum sínum, eins og Landsbanki Íslands, sem er ekki hægt er að gera hjá Íbúðalánasjóði því að hann er ekki með nein önnur lán. Það er líka athyglisvert að skoða samsetningu, sem er verið að fara yfir núna, þess hóps sem hugsanlega fengi þarna fyrirgreiðslu því að áfram verður jaðarhópur sem á í miklum erfiðleikum með greiðslu og fellur ekki undir þessa 110%-leið.

Hafandi sagt það held ég að það sé alveg rétt að við þurfum að fara yfir þetta en það er Alþingis og fjárveitingavaldsins að ákveða hvort við erum tilbúin að leggja þessa peninga fram. Það þarf að fara yfir það hvort við náum utan um það þannig að við séum ekki að byrja enn einu sinni. Ég hef stundum sagt sem búsettur úti á landi og orðið að búa við þetta á Vestfjörðum þar sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson þekkir manna best til. Þar eru húseignir dottnar niður í það að vera með 25% af upprunalegu verðmæti eignanna og hafa menn aldrei fengið bætur fyrir það, sem er gríðarlega alvarlegt mál. Strax og farið er upp á Akranes eða aðeins lengra í burtu, t.d. í Borgarbyggð, veit sá sem byggir hús þar að það fellur um 20% á fyrsta ári í verðmæti. Í Reykjavík gerðist þetta þannig að verðmæti á eignum jókst um 50% á þremur árum, á árunum 2004–2006. Aftur á móti varð holskefla 2006–2008 og við þurfum að fara yfir með hvaða hætti við getum leiðrétt það. Það er mjög dýrt ef við ætlum að leiðrétta alla Vestfirðina og alla landsbyggðina aftur í tímann sem væri mikið sanngirnismál, einmitt með þeim rökum sem hér hafa komið fram um ójafnræði á milli byggðarlaga.

Áfram er þetta í skoðun og við munum að sjálfsögðu reyna að meta með hv. Alþingi með hvaða hætti hægt er að koma til móts við vandann. Það hefur verið hvað ósanngjarnast að þeir sem hafa verið með lánsveð umfram 110% hafa ekki fengið niðurfellingu og (Forseti hringir.) er stór hluti þeirra hjá lífeyrissjóðunum. Þær viðræður þurfa auðvitað að fara fram með hvaða hætti er hægt að koma til móts við þann hóp þannig að allir fái þá 110%-leið sem lagt var upp með í byrjun.