140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

heilsufarsmælingar í Skutulsfirði.

448. mál
[18:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrr í dag ræddi ég við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hið svokallaða díoxínmál sem kom upp í Skutulsfirði í ársbyrjun síðasta árs og var þá mjög mikið til umræðu. Í framhaldi af því var ákveðið að grípa til margs konar mælinga, m.a. voru gerðar mælingar á díoxíninnihaldi í kjöti af skepnum sem höfðu gengið um hagana í Skutulsfirði, farið í mælingar á jarðvegi, tekin jarðvegssýni og loks var ákveðið að fara í sérstakar athuganir á heilsufari íbúa Skutulsfjarðar og starfsmanna sorpbrennslustöðvarinnar Funa sem kom mjög við sögu í sambandi við þetta díoxínmál.

Þetta gerðist ekki síst í framhaldi af því að ýmsir höfðu látið í ljósi áhyggjur af díoxínmenguninni sem sannarlega var þarna til staðar þó að það hafi komið í ljós að hún var minni en menn ætluðu í upphafi, t.d. kom fram í máli hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að nú væri búið að aflétta öllum hömlum á búrekstri í Skutulsfirði. Engu að síður var ákveðið að fara í þessar heilsufarsmælingar. Það hafði komið fram í opinberri umræðu hjá ábyrgum aðilum að mögulega hefði lífi, heilsu og velferð íbúa í næsta nágrenni við sorpbrennslustöðina verið teflt í ákveðna tvísýnu vegna þess að menn höfðu áhyggjur af rekstrarleyfi og fjárhagslegri stöðu sorpbrennslustöðvarinnar og bæjarfélagsins sem slíks og að sá þáttur hefði fengið svo mikla athygli og þess vegna hefðu menn veitt því minni athygli að mögulega væri einhver heilsufarsleg hætta til staðar hjá íbúum Skutulsfjarðar.

Það var sem sagt ákveðið að fara í þessar heilsufarsmælingar á íbúum Skutulsfjarðar og starfsmönnum sorpbrennslustöðvarinnar Funa vegna ætlaðrar mengunar frá þessari umræddu stöð. Því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. velferðarráðherra hver hafi orðið niðurstaðan af þessum mælingum, annars vegar á íbúum Skutulsfjarðar almennt í samræmi við þær rannsóknar sem gerðar voru og hins vegar hjá starfsmönnum sorpbrennslustöðvarinnar Funa vegna ætlaðrar mengunar frá stöðinni.