140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

heilsufarsmælingar í Skutulsfirði.

448. mál
[18:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góð og skilmerkileg svör. Það er auðvitað mjög gott að það var ákveðið að fara í þessa rannsókn á sínum tíma vegna þess að sá ótti var uppi og hann hafði verið orðaður í opinberri umræðu að sú díoxínmengun sem sannarlega mældist frá þessari sorpbrennslustöð kynni að hafa heilsufarslegar afleiðingar.

Nú liggur það fyrir, og það er aðalatriði málsins, að þær mælingar sem gerðar hafa verið með samanburði við meðal annars viðmiðunarhópa annars staðar á landinu sem ekki hafa þá væntanlega komist í námunda við andrúmsloftið frá Funa, ekki að jafnaði að minnsta kosti, sýna að öll gildi eru undir þeim mörkum sem ætlað er að hafi heilsufarsleg áhrif. Þá vitum við það.

Sá ótti sem uppi var og var orðaður opinberlega reyndist sem betur fer ástæðulaus. Það er aðalatriðið, það er það sem við eigum að fagna.

Svo er athyglisvert, sem fram kemur í svari hæstv. ráðherra, að það kunni líka að vera aðrar skýringar. Það kemur fram að einstaklingur utan Ísafjarðarsvæðisins hafði mælst með eitthvað hækkað gildi þó að það væri líka langt innan heilsufarslegra marka sem gefur til kynna að það sé ekki alveg augljóst að einhver hækkun á díoxíngildum hjá fólki eigi allar rætur sínar að rekja til þessarar sorpbrennslustöðvar. Það kunna að vera aðrar ástæður fyrir því.

Aðalatriðið er að þessi rannsókn fór fram og að hún leiddi það í ljós að það eru engar þær afleiðingar af brunanum í Funa sem gerðu það að verkum að ástæða væri til að hafa áhyggjur af heilsufari almennings. Síðan vil ég bæta því við sem skiptir miklu máli að áður en þetta mál kom upp hafði verið tekin um það ákvörðun af (Forseti hringir.) meiri hluta bæjarstjórnar Ísafjarðar að leggja niður sorpbrennslustöðina í Funa. Það var að vísu umdeilt mál, aðrir stjórnmálamenn á vettvangi höfðu aðra skoðun en það hafði verið tekin um það ákvörðun af bæjaryfirvöldum á Ísafirði að leggja niður (Forseti hringir.) starfsemina í Funa áður en þetta mál kom upp.