140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

um húsnæðisstefnu.

450. mál
[19:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra hversu skipulega velferðarráðuneytið og ráðherra hefur tekið á framhaldsvinnu varðandi tillögur samráðshópsins. Það er sérstaklega ánægjulegt að heyra að komnar séu dagsetningar um það hvenær viðkomandi framhaldshópar munu skila af sér formlegum tillögum og útfærslum. Ég hef lagt mjög mikla áherslu á það í vinnu samráðshópsins og líka innan Framsóknarflokksins að við þurfum að fjölga búsetuformum, að við þurfum að tryggja að þeir sem leigja, hvort sem þeir greiða mánaðarleigu í gegnum húsnæðissamvinnufélög eða hjá leigufélögum, og þeir sem borga af húsnæði sem flokkast sem séreign fái sambærilegan stuðning; að það sé sambærilegur stuðningur við þessi búsetuform.

Við þurfum að sjá til þess að ungt fólk sem er að koma úr námi, kaupa sína fyrstu eign eða koma sér upp sínu fyrsta heimili — maður er orðinn svo vanur því að tala um eign að maður festist nánast í því orðalagi, sýnir kannski hve sterk þessi séreignarstefna hefur verið hér á Íslandi — hafi í framtíðinni raunverulegt val um öruggt húsnæði. Það er lykilatriði, ekki hvort það er séreign, leiga eða búseturéttur.

Ég fagna því virkilega að komnar eru fram ákveðnar dagsetningar, ég hlakka til að sjá þessar tillögur. Þó að ég sé búinn með tíma minn vil ég ítreka það sem ég spurði um varðandi (Forseti hringir.) aðkomu sveitarfélaganna. Það var eitt af því sem ég hafði töluverðar áhyggjur af þegar við vorum að vinna þessar tillögur að staða sveitarfélaganna væri bara þannig að þau ættu í erfiðleikum (Forseti hringir.) með að koma til móts við ríkið; og raunar hefur staða ríkisins líka verið erfið. Ég mundi gjarnan vilja fá svör frá ráðherranum hvað það varðar.