140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nú hefur það verið upplýst að ríkisstjórnin hefur ekki með sínum löngu krumlum enn þá náð að setja skatta á pönnukökupönnur og brauðristar. Og nú ætla ég að fullyrða að allar líkur eru á því að við munum sjá á næstunni sérstakt frumvarp til laga um að setja skatta á pönnukökupönnur og brauðristar. Þannig hefur að minnsta kosti ríkisstjórnin unnið, þegar hún hefur séð einhvers staðar færi á því að hækka skatta hefur það að sjálfsögðu verið gert.

Ég ætla aðeins að fara yfir stöðu mála sem snúa að hinni svokölluðu rammaáætlun og rifja upp nokkrar dagsetningar í því sambandi. Skýrsla nefndar um rammaáætlun sem hafði verið lengi í undirbúningi leit dagsins ljós í júní á síðasta ári. Í þingmálaskrá sem hæstv. forsætisráðherra gerði opinbera núna 18. janúar var það boðað að þingmál um rammaáætlun yrði lagt fram á þinginu 30. janúar, 12 dögum seinna. Nú skyldi maður ætla að þegar þingmálaskrá er útbúin með þessum hætti og það boðað að þetta stóra mál komi inn í þingið 12 dögum síðar hafi legið þar að baki einhver vitneskja um hvar þetta mál er statt.

Ég átti viðræður við hæstv. umhverfisráðherra hér í síðustu viku, á þriðjudaginn fyrir nákvæmlega viku, og þá sagði hæstv. umhverfisráðherra að ætlunin væri sú að í meginatriðum verði staðið við þann tímaramma sem lagt er upp með, þ.e. (Forseti hringir.) að það verði klárað um þetta leyti.

(Forseti (ÁRJ): Einn fund í salnum.)

Nú er hins vegar kominn 31. janúar og einu fréttirnar sem við höfum af þessu eru þær að þessi mál séu í mikilli togstreitu innan stjórnarflokkanna. Það kemur ekki á óvart. Við vitum alveg um hvað þessi togstreita snýst, hún snýst um það að fækka þeim verkefnum sem skýrslan um rammaáætlun hafði sett inn í nýtingaráætlun, færa þau inn í biðflokkinn eða verndunarflokkinn, koma í veg fyrir að hægt sé að vinna í anda þeirrar nýtingaráætlunar sem rammanefndin hafði sett fram. Þetta (Forseti hringir.) er auðvitað fráleitt, og auðvitað alveg fráleitt að ríkisstjórnin skuli vera búin að hanga á þessu máli í átta mánuði, frá því að skýrslan var lögð fram, eingöngu vegna þess að það er pólitísk togstreita milli og innan (Forseti hringir.) stjórnarflokkanna um þetta mál.