140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Rannsóknir hafa sýnt að ljóshært fólk á oft erfiðara með að ná árangri í lífinu. Rannsóknir hafa líka sýnt fram á að hávaxið fólk á auðveldara með að fá hærri laun og ná árangri í lífinu. En hvað ef einhver er ljóshærður, lágvaxinn og er kona sem er yfirmaður hjá ríkisstofnun eða ríkisfyrirtæki? Þá virðist greinilega vera erfitt að fá rétt laun, sambærileg laun og karlar í sambærilegum stöðum. Það kemur núna fram í Fréttatímanum að kjararáð sem er skipað af Alþingi, sem við berum ábyrgð á, er að ákvarða konum lægri laun en körlum í sambærilegu starfi, jafnvel í sama starfi. Núverandi forstjóri Fríhafnarinnar, kona, ekki sérstaklega há í loftinu, að vísu dökkhærð, hjálpar henni kannski, fékk lægri föst yfirvinnulaun í ákvörðun kjararáðs. Og það var ekki fyrr en eftir að forstjórinn ákvað að kæra þá ákvörðun til Jafnréttisstofu að kjararáð endurskoðaði ákvörðun sína. Þegar skoðaðar eru upplýsingar almennt um launakjör karla og kvenna sem kjararáð ákveður kemur ítrekað fram að konur virðast þurfa að vinna minni yfirvinnu, jafnvel í störfum þar sem krafist er meiri ábyrgðar, þar sem þær fara með meiri veltu og fleira starfsfólk.

Þetta er sláandi. Því vil ég spyrja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, formann allsherjar- og menntamálanefndar: Hvernig er ætlunin að bregðast við þessu? Hvar er hin margumtalaða kynjaða hagstjórn sem hlýtur að byrja (Forseti hringir.) í launum fólks?