140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er vel við hæfi að taka þetta mál hér upp á 30 ára afmælisdegi Kvennaframboðsins sem var stofnað á Hótel Borg fyrir 30 árum. Það markaði mikil þáttaskil í íslenskum stjórnmálum og er án efa einn af merkustu atburðum í stjórnmálasögu okkar á liðnum áratugum og hefur skilað gríðarlegum árangri. Jafnréttismál á Íslandi hafa tekið stakkaskiptum á þessum 30 árum. Það sjáum við á Alþingi, það sjáum við sem betur fer víðast hvar í samfélaginu en vissulega ekki alls staðar.

Það mál sem hv. þingmaður vekur hér athygli á á þessum merka degi í sögu íslenskra stjórnmála sætir auðvitað talsverðri furðu. Er ótrúlegt að slíkur úrskurður geti legið eftir kjararáð og með nokkrum ólíkindum þegar maður plægir í gegnum málið að þetta hafi verið niðurstaðan eftir skoðun á stöðu viðkomandi einstaklinga hvað varðar menntun, hæfi og allt annað. Það kallar auðvitað á útskýringar og áminningu til allra, bæði kjararáðs og annarra sem fara með launamál og annað sem snertir jafnrétti kynjanna og stöðu fólks í samfélaginu, jafnréttismál í sinni breiðustu mynd, að gæta sanngirni og réttlætis.

Grundvallaratriðið í jafnréttismálum kemur skýrt fram í jafnréttislögunum og allt annað en það er lögbrot. Það stendur í jafnréttislögunum að greiða skuli konum og körlum hjá sama atvinnurekanda jöfn laun og þau skuli njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Það er kjarni málsins og það eru engir afslættir eða undanþágur frá jafnréttislögum sem þetta varðar frekar en annað í landslögum Íslands. Þessi áminning er ágæt hér á Alþingi í dag og annars staðar í samfélaginu á degi sem markar þessi þáttaskil í íslenskri (Forseti hringir.) stjórnmálasögu og auðvitað í jafnréttismálum sérstaklega.