140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

ábyrgð og eftirlit hins opinbera gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu í ljósi sílikonpúða-málsins.

[14:05]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Sílikonpúðamálið sem kom hér upp nýlega hefur vakið margar áleitnar spurningar um öryggi og réttarstöðu sjúklinga í heilbrigðiskerfi okkar. Sílikonpúðamálið er raunar aðeins eitt mál af nokkrum sem hafa vakið áleitnar spurningar um öryggi og réttarstöðu neytenda almennt hér á landi eftir að uggvekjandi upplýsingar komust í hámæli um díoxín-mengun frá sorpbrennslustöðvum sem var látin óátalin missirum saman, kadmíum-mengun í áburði og nú síðast iðnaðarsalt í matvælum. Allt dæmi um lamað eftirlitskerfi hins opinbera, meðvirkni og ráðaleysi af því tagi sem við sáum því miður að verki fyrir hrun. Þá birtist það okkur gagnvart fjármálastofnunum og útrásarvíkingum en nú sjáum við það hins vegar að verki í sjálfum innviðum samfélagsins eins og heilbrigðisþjónustunni þar sem það bitnar á neytendum landsins og skjólstæðingum heilbrigðiskerfisins.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu frá 2007 segir í 3. gr. að ráðherra marki stefnu um heilbrigðisþjónustu innan ramma laganna. Honum sé heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja þeirri stefnu, m.a. hvað varðar gæði og öryggi þjónustunnar og aðgengi að henni. Þar er enn fremur kveðið á um eftirlit landlæknis með að heilbrigðisþjónusta uppfylli faglegar kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu og ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma.

Í ljósi þessara laga og þess sem gerst hefur í hinu svokallaða sílikonpúðamáli þar sem læknir í stöðu yfirlæknis á Landspítalanum hefur samhliða rekið sína eigin læknastofu og um leið verið innflytjandi þeirra lækningaefna, í þessu tilfelli sílikonpúða, sem hann sjálfur hefur notað í sjúklinga sína, vil ég beina nokkrum spurningum til hæstv. velferðarráðherra:

Hvaða augum lítur hæstv. ráðherra ábyrgð og eftirlit hins opinbera gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu?

Telur ráðherrann góðan brag á því að sami aðili gegni yfirlæknisstöðu á opinberri stofnun til hliðar við einkarekna læknastofu eða er kannski tími til kominn að vinda ofan af einkapraxís lækna á opinberum sjúkrahúsum og skilja alveg milli einkareksturs og opinbers reksturs á sviði heilbrigðisþjónustu?

Telur ráðherra eðlilegt að læknar geti sjálfir verið innflytjendur lækningatækja eða búnaðar eða efna sem þeir nota við aðgerðir á sjúklingum sínum? Samræmist það að mati ráðherra þeim skráðu og/eða óskráðu siðferðisviðmiðunum sem heilbrigðisþjónustan hefur eða ætti að hafa? Ættu þá ekki sömu viðmið að gilda um þetta og t.d. lyfjainnflutning og lyfsöluleyfi, en samkvæmt lyfjalögum, 3. mgr. 21. gr. lyfsölulaga, eru settar skorður við heimildum starfandi lækna til þess að selja eða flytja inn lyf?

Er ekki ástæða til þess að setja skýr lög sem setja skorður við hagsmunaárekstrum af því tagi sem við sjáum í þessu sílikonpúðamáli þannig að einu gildi hvort um sé að ræða lækningaefni, lækningatæki, lyf eða annað sem læknar nota eða ávísa beint á skjólstæðinga sína?

Að lokum, vegna þess að ég tel að ráðherra sé mér sammála um að skerpa þurfi verulega á eftirliti með heilbrigðisþjónustu, ekki síst þeirri einkareknu, vil ég spyrja: Hvaða leiðir sér ráðherrann færar í því efni að koma hér á skilvirku eftirlitskerfi sem stendur undir nafni?

Ég hef tekið eftir því þegar ég skoða lögin að þar er kveðið á um eftirlitsskyldu opinberra aðila á borð við landlækni en hins vegar er engin viðurlög að finna við því sé eftirlitinu ekki sinnt. Þá gilda aðeins óljós ákvæði 21. og 26. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að viðlagðri áminningu eða uppsögn sé um vanrækslu að ræða.

Það er auðvitað áleitin spurning í ljósi þeirrar ófremdar sem hefur birst okkur í þessu máli og fleirum sem ég hef gert að umtalsefni hvort ástæða sé til þess að setja viðurlög við vanrækslu eftirlits og tilgreina nánar hvað geti talist vanræksla í því tilviki.

Síðast en ekki síst er auðvitað ástæða til að ræða, og það munum við gera í seinni umræðunni á eftir, viðbrögð heilbrigðisyfirvalda gagnvart þeim konum sem nú líða fyrir hina (Forseti hringir.) gölluðu sílikonpúða, ekki aðeins líkamlega heldur líka andlega.